Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 17:58:17 (5818)

2004-03-30 17:58:17# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Já, það er eins og oft áður að sínum augum lítur hver á silfrið. Þó að hv. þm. sjái ekki árangur á hafsvæði okkar eru mjög margir aðrir sem sjá árangur í því sem hér er að gerast, (Gripið fram í.) að flestir okkar fiskstofnar eru annaðhvort í góðu jafnvægi eða á uppleið.

Við verðum hins vegar líka að átta okkur á því að við getum verið með gott kerfi og við getum látið þær ákvarðanir sem teknar eru í samhengi við það kerfi ganga upp með eftirliti. Ef ákvarðanirnar eru hins vegar rangar hvað varðar heildaraflamarkið náum við ekki þeim árangri sem við ætlum okkur að ná. Það er fleira en bara það að hafa kvótakerfi sem skiptir máli, það er auðvitað eftirlitskerfi og það eru líka ákvarðanirnar sem byggðar eru á upplýsingum frá vísindamönnum.