Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 17:59:34 (5819)

2004-03-30 17:59:34# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[17:59]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst eiginlega hæstv. ráðherra koma svolítið fátæklega til umræðunnar með upplýsingar um það hvernig þetta veiðigjald kæmi út. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hefði átt að vita fyrir fram að spurningar um það hlytu að koma upp við þessa umræðu.

Hæstv. ráðherra nefndi þetta innlegg sitt í Morgunblaðinu í vikunni um breska kerfið og að það gengi ekki upp að hans mati vegna þess að framseljanlegar veiðiheimildir mundu þýða að önnur af efnahagsbandalagslöndum kæmust þá yfir veiðiheimildir á bresku miðunum. Í því samhengi nefndi hann að Samf. vildi samt sem áður ganga í Evrópusambandið.

Hæstv. ráðherra veit vel að ágreiningur um sjávarútvegsmálin milli Sjálfstfl. og Samf. snýst fyrst og fremst um eignarhaldið á veiðiréttinum. Auðvitað þarf að leysa það vandamál, það er engin spurning um það. Ef fyrningarleiðin yrði farin og komið á leigukerfi veiðiheimilda á Íslandsmiðum þyrftu menn ekki að hafa áhyggjur af því að tapa veiðiréttinum frá landinu. Auðvitað væri hugsanlegt fyrir Breta að fara þá leið og þeir gætu þá haldið sínum veiðirétti heima.

Það er hægt að ímynda sér að Bretar taki upp þetta framseljanlega veiðiheimildakerfi í svipuðum dúr og við erum með vegna þess að munurinn á þessu tvennu er ekkert óskaplega mikill. Hann er hins vegar afskaplega mikilvægur.