Sóttvarnalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 18:50:51 (5840)

2004-03-30 18:50:51# 130. lþ. 90.7 fundur 790. mál: #A sóttvarnalög# (skrá um sýklalyfjanotkun) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu er lagt til að við 3. og 5. gr. verði bætt ákvæðum um að haldin skuli skrá um sýklalyfjanotkun hjá mönnum. Talið er að náið en flókið samband sé á milli vaxandi notkunar á sýklalyfjum og útbreiðslu sýkla sem eru ónæmir fyrir lyfjunum. Sýklalyf sem hafa stuðlað að lækningu og bættri heilsu manna hafa jafnframt stuðlað að auknu ónæmi sýkla fyrir sýklalyfjum. Því er ekki hægt að komast fyrir vandann með því að þróa stöðugt ný sýklalyf.

Sýklalyfjaónæmi getur verið ógnun við heilsu manna, valdið auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustuna og haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild. Nauðsynlegt er því talið að fylgjast með notkun sýklalyfja.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópusambandið hafa hvatt til að fylgst verði með sýklalyfjanotkun. Framkvæmdastjórn ESB hefur farið þess á leit að þær stofnanir þjóða ESB og EES sem bera ábyrgð á vöktun smitsjúkdóma sinni einnig vöktun á notkun sýklalyfja. Þessar stofnanir hafa talið nauðsynlegt að bregðast við vandanum innan ESB og EES með því að hvetja til varúðar í notkun sýklalyfja.

Nauðsynlegt er því að koma á nákvæmum vöktunarkerfum sem veita samanburðarhæfar upplýsingar um nýgengi og algengi ónæmra sýkla og upplýsingar um notkun sýklalyfja innan ESB og EES. Skráningarkerfi það sem í frv. þessu er lagt til að verði tekið upp er hluti af vöktunarkerfi sem er tæki í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi og er ætlað að varpa ljósi á möguleg tengsl milli notkunar á sýklalyfjum og myndunar ónæmis. Slíkar aðgerðir miða að því að draga úr misnotkun sýklalyfja og geta minnkað líkur á myndun sýklalyfjaónæmis.

Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um framkvæmd skráningarinnar í reglugerð nr. 129/1999, um skýrslugerð vegna smitsjúkdóma, og fylgja drög að viðeigandi breytingum á reglugerðinni með frumvarpinu. Lagt er til að upplýsingar um skrá í sýklalyfjanotkun verði ópersónugreinanlegar og sóttvarnalæknir gefi nánari fyrirmæli um tilhögun skráningar og öryggi persónuupplýsinga. Haft var samráð við Persónuvernd við samningu frv. og viðeigandi breytingu á reglugerð.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til heilbr.- og trn. og til 2. umr.