Samvinna Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 19:05:04 (5846)

2004-03-30 19:05:04# 130. lþ. 90.10 fundur 571. mál: #A samvinna Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum# þál. 14/130, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[19:05]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Mig langar til að segja örfá orð varðandi þáltill. þar sem ég hafði ekki tækifæri til þess við fyrri umr. Eins og kemur fram í nál. hv. utanrmn. á þáltill. rót í samþykkt ályktana Vestnorræna ráðsins frá því í ágúst 2003 um að fela ríkisstjórn Íslands og landsstjórnum Færeyja og Grænlands að auka samvinnu Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum.

Í fyrirspurnatíma á hinu háa Alþingi í des. sl. í var ég ásamt hæstv. heilbrrh. að ræða um heilbrigðisþjónustu til útlendinga. Þar kom m.a. fram að Íslendingar hafa um nokkurt skeið selt útlendingum heilbrigðisþjónustu, sérstaklega Grænlendingum sem hafa fengið bæði bráðaþjónustu og einnig ákveðnar varaaðgerðir. Jafnframt var greint frá því að það væru yfirstandandi viðræður við Færeyinga sem hefðu áhuga á samstarfi við Íslendinga á ákveðnum sviðum.

Ég tel að sú þróun sem ég hef lýst sé mjög jákvæð og jákvætt framhald af góðri samvinnu nágranna okkar á norðurslóðum og merki um þann velvilja sem ríkir á milli þjóðanna. Ég hef á síðustu missirum bæði skrifað og rætt töluvert um þá möguleika sem Íslendingar hafa til að selja heilbrigðisþjónustu til útlendinga. Við höfum allar forsendur til þess, við höfum hágæðaþjónustu, góða menntun heilbrigðisstarfsmanna og erum tæknilega mjög vel útbúin til þess.

Ég bendi á að á lýðheilsuþingi sem haldið var sl. haust tók Berglind Ásgeirsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri OECD, það sérstaklega fram að hún teldi að Ísland væri tilvalið til að selja útlendingum heilbrigðisþjónustu og íslensk heilbrigðisþjónusta væri í sóknarfæri til útflutnings. Mér hefur ekki fundist að þessu máli hafi verið gefinn nægilegur gaumur á síðustu missirum og því fagna ég þáltill. sem er að fara í gegnum þingið sem má líta á sem ákveðna rennibraut í þessa veru. Það væri hægt að prófa sig áfram með því að byrja á að gera samninga við landsstjórnir Grænlendinga og Færeyinga um þessa þjónustu.

En við erum ekki ein um að vera í þessum hugleiðingum. Bæði eru íslenskir fagaðilar í heilbrigðisþjónustu þegar farnir að selja heilbrigðisþjónustu til útlendinga og í nýrri skýrslu Verslunarráðsins um ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu er sérstaklega fjallað um sölu á heilbrigðisþjónustu til útlendinga sem sóknarfæri og bent á að þetta er gjaldeyrisskapandi fyrir Ísland, það færist fjármagn inn í íslenska heilbrigðisþjónustu og veitir kannski ekki af. Þetta er atvinnuskapandi og í því sambandi má benda á að fjölmargir íslenskir heilbrigðisstarfsmenn, sérstaklega læknar erlendis, bíða eftir tækifæri til að komast heim. Þarna gætu skapast tækifæri fyrir þá að fá atvinnu á Íslandi og einnig aukið tækifæri fyrir fagfólk að láta til sín taka.

Fyrst og og fremst verður, í samhengi við það sem þáltill. fjallar um, tækifæri til að styðja við nágrannþjóðir okkar og vinaþjóðir að ná heilbrigðismarkmiðum sínum og vil ég sérstaklega taka fram að ýmis merki um heilbrigðisátak Grænlendinga eru í þá veru að við gætum verulega látið til okkar taka og aðstoðað þá við að ná betra heilbrigði.

Eins og ég sagði áðan tel ég þetta verðugt upphafsskref til skipulagðrar sóknar í heilbrigðisþjónustu til útlendinga en tækifærin eru víða, ekki síst gagnvart Evrópu eftir niðurstöðu Evrópudómstólsins frá 12. júní 2001 sem varðaði viðurkenningu á rétti sjúklinga í Evrópusambandinu til að leita sér heilbrigðisþjónustu í öðru landi ef sambærileg þjónusta býðst ekki tímanlega í heimalandi viðkomandi á kostnað sjúkratrygginga viðkomandi í heimalandi sínu. Þetta hefur orðið til þess, eins og ég hef rætt um, að t.d. bresk sjúkrasamlög eða breskar sjúkratryggingar senda Breta í stórum stíl til annarra landa, sérstaklega Frakklands og Þýskalands, til að grynnka á biðlistum sínum og sama tækifæri gæti snúið að okkur Íslendingum.

Ég vil að lokum benda á að nú nýverið kom nefnd um byggðamál á Eyjafjarðarsvæðinu fram með þá hugmynd að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri gæti orðið miðstöð heilbrigðisþjónustu við útlendinga. Ég get í sjálfu sér tekið undir þá hugmynd og vil reyndar útvíkka hana yfir stærra svæði, en að gera Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri að miðstöð heilbrigðisþjónustu fyrir útlendinga færi í rauninni ágætlega saman við miðstöð sjúkraflugs sem þar er og því flugfæri bæði við Grænland og Færeyjar.

Ég fagna því að þáltill. sem hér er til umræðu er komin til síðari umr. og ég hef miklar væntingar um að hún hreyfi þessu mikilvæga máli og verði fyrsta skref opinberra aðila á nýrri braut í íslenskri heilbrigðisþjónustu því ég hef bent á að það þarf að taka ákveðnar ákvarðanir, það þarf að setja stefnu í þessum málum. Það er ekki nægjanlegt að einstaklingar, fagaðilar í heilbrigðisþjónustu, leiti á þessi mið. Þeir þurfa að fá ákveðinn stuðning frá stjórnvöldum, ekki síst í formi stefnu, og að ákvörðun verði tekin um að fara þessa leið.

Að lokum vil ég benda á að Bláa lónið hefur náð góðum árangri í sölu á heilbrigðisþjónustu til útlendinga á sínu sviði, sem er húðvandamál, og innan tíðar munum við sjá útlendinga koma hingað í meira mæli en áður einmitt til að leita til þeirrar sérstöku aðstöðu sem Bláa lónið og heilbrigðisaðstaðan þar býður upp á.