Afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 13:36:42 (5851)

2004-03-31 13:36:42# 130. lþ. 91.91 fundur 445#B afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Lokaorð hv. þingmanns eru eins og töluð út úr mínu hjarta. Það er skoðun mín að við verðum að skoða starfsáætlun og vinnulag þingsins upp á nýtt. Við erum með æ lengra jólahlé og nú mun vanta um það bil viku upp á að sumarhlé þingmanna verði fimm mánuðir. Þetta er óásættanlegt miðað við vinnulagið í þinginu, ekki síst á álagspunktum.

Ég kem núna af fundi í umhvn. þar sem við vorum að fjalla um mikilvæg stjórnarfrumvörp. Þar gerðist það að formaðurinn sat í nefndinni með einum varaþingmanni frá stjórnarliðinu sem aldrei áður hefur tekið þátt í störfum nefndarinnar og nokkrum frá stjórnarandstöðunni. Mér finnst það niðurlæging þegar það er orðið þannig að það er verið að reyna að troða upp í öll hlé sem skapast í störfum þingsins til að komast áfram með mikilvæg stjórnarmál sem við höfum áhuga á að verði sem best úr garði gerð. Við fáum á tilfinninguna að bara sé verið að fullnægja einhverju með því að halda fund fyrir stjórnarandstöðuna. Ég tek það sérstaklega fram hvað varðar umhvn. að þetta er ekki vilji formannsins og hún harmar mjög að svo illa var mætt.

Ég hlýt í sambandi við þetta að minna á að fyrir þinginu liggur tillaga frá þeirri sem hér stendur og hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur um að breyta þinghaldinu þannig að það hefjist um miðjan september, því ljúki 16. júní og farið verði í að endurskipuleggja þinghaldið þannig að við séum ekki í þessari streitu. Þannig hefðum við tíma til að vinna með öll mál og gætum tryggt það í vinnulagi okkar og vinnubrögðum að það hafi a.m.k. verið haldið vel á málum og það sé ekki fyrir slugs eða hraða yfirferð sem það verði galli á lagasetningu héðan frá Alþingi. Það gerist stundum.

Tillagan var lögð fram á þinginu 10. október og fyrir henni var mælt 1. mars.