Afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 13:38:57 (5852)

2004-03-31 13:38:57# 130. lþ. 91.91 fundur 445#B afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég get tekið undir það að afgreiðsla þingmannamála stjórnarandstöðunnar út úr nefndum er misjöfn og dregst í mjög mörgum tilfellum langt úr hófi. Það verður samt líka að taka það fram að það er misjafnt eftir þingnefndum og ber að virða þegar vel er gert. Í heildina liggja þingmannafrumvörp stjórnarandstöðunnar allt of mikið til hliðar.

Ég tel að það sé mikilvægt að horfa til nefndarstarfanna og skipulags starfa í nefndunum sjálfum, þar sé markvisst unnið og tíminn vel nýttur. Það verður að segjast eins og er að meðan fá mál eru inni í upphafi þings má oft nýta tímann betur og auðvitað á að senda öll þingmannamál út til umsagnar. Eðlilegast væri að þau fengju afgreiðslu á þinginu.

Ég vil aðeins víkja að stjórnarfrumvörpum. Það er auðvitað aldeilis óþolandi að ár eftir ár komi hingað fram á þinginu stór og mikil frv. eins og var talað fyrir í gær, frv. til jarðalaga og frv. til ábúðarlaga sem eru mikil að vöxtum og þurfa ítarlega yfirferð og umsagnir. Þar sem þessi frv. hafa bæði verið lengi í vinnslu tel ég að þarna sé um að ræða vinnubrögð sem séu ekki til eftirbreytni. Við ræddum í gær líka um störf þingsins og í þeirri umræðu kom í ljós að lög um fjarskipti voru afgreidd á síðasta vori í það miklum flýti að hugsanlega var ekki farið nægilega vel yfir málið. Þetta er þinginu til vansa. Ég held að við þurfum að skoða þetta og ég vil beina þessu sérstaklega til stjórnarmanna.