Afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 13:41:16 (5853)

2004-03-31 13:41:16# 130. lþ. 91.91 fundur 445#B afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 130. lþ.

[13:41]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að stjórnarfrumvörp sem lögð eru fram eru lögð fram með fulltingi meiri hluta þingsins sem ríkisstjórnin styðst við og það er ekkert óeðlilegt við það að þau mál fái greiðan aðgang í störfum þingsins eftir því sem kostur er. Þegar svo er staðið að verki er fyrir fram ljóst að meiri hluti stendur á bak við þau, oftast nær eru menn búnir að taka efnislega afstöðu en a.m.k. eru menn búnir að samþykkja að leggja þau fram og taka þau til vinnslu.

Hvað varðar þingmannamál er það rétt að það hefur verið allur gangur á því hvernig unnið hefur verið í þeim í þingnefndum. Ég tek undir þau sjónarmið að eðlilegt væri að þingnefndir störfuðu lengur á hverju ári en nú er. Ég tel satt að segja alveg fráleitt að þingið ljúki störfum 7. maí og þingnefndir séu aðgerðalausar fram til 1. október. Það er ekkert sem bannar þingnefndum að halda störfum sínum áfram í maí og júní og eftir atvikum í september en þær gætu þá ekki lagt fyrir þingið niðurstöður athugunar sinnar fyrr en þá á næsta þingi og þá er það um seinan.

Fjórum þingmannamálum hefur verið vísað til hv. iðnn. og af þeim hefur nefndin þegar afgreitt eitt þeirra, um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri sem Alþingi hefur síðan samþykkt sem ályktun Alþingis. Till. til þál. um vetnisráð er í umsögn sem rann út í síðustu viku og verður tekin til umfjöllunar á næstu fundum nefndarinnar. Síðan eru tvö önnur þingmannamál sem hafa verið tekin fyrir og boðað að verði tekin til umræðu í iðnn. og það er gert í samráði við flutningsmenn þeirra.