Afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 13:45:14 (5855)

2004-03-31 13:45:14# 130. lþ. 91.91 fundur 445#B afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er mjög eðlilegt að mál þingmeirihlutans fái brautargengi í þinginu. Þannig er verið að endurspegla þingviljann í málinu. Það er mjög eðlilegt að mál sem meiri hluti þingsins ber fram komist áfram og séu síðan til lykta leidd með atkvæðagreiðslu og málin gerð að lögum eða með öðrum þeim hætti sem þingið ákveður. Það er ekkert óeðlilegt við það nema síður sé.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að við höfum í störfum þingsins, m.a. núna í vetur, verið að reyna að skapa sem mest rými fyrir þingmannamál. Ég hef t.d. sem formaður þingflokksins beitt mér fyrir því að reyna að auðvelda það að sem flest þingmannamál kæmust á dagskrá til þess einfaldlega að kalla fram þessa umræðu þannig að menn geti tjáð skoðanir sínar og þá gæti komið fram afstaða manna til þessara mála.

Auðvitað er það þannig að í því felst tiltekin afstaða þegar tekin er um það ákvörðun af meiri hluta þingnefndar að ákveða að afgreiða ekki mál út úr þingnefnd. Í því felst ákveðin vísbending eða afgreiðsla á því viðkomandi þingi.

Ég vísa því alveg frá að ekki sé verið að takast á við þingmannamál. Öðru nær. Þvert á móti er hægt að sýna fram á að reynt hefur verið að opna á það að menn gætu lagt fram sem flest þingmannamál og rætt þau. Hins vegar er það dálítið áhyggjuefni að stundum hafa menn kosið að gera það í einstökum flokkum að nánast blokkera mælendaskrána þannig að málin hafa komist mjög seint áfram. Það er ekki til þess fallið að greiða fyrir þingstörfum þegar það gerist að heilu þingflokkarnir raða sér á mælendaskrá og halda nánast hér uppi málþófi heilu dagana þannig að mjög fá þingmannamál komast fyrir vikið á dagskrá. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Við höfum líka verið að auðvelda störf þingsins með því að hafa sérstaka nefndardaga til þess að geta komist betur í þau mál sem verið er að fjalla um. Og af því að alltaf er verið að tala um að ekki séu viðhöfð nægilega vönduð vinnubrögð í þinginu þá vil ég vekja athygli á því að langflest þeirra mála sem við fjöllum um taka vikur og mánuði og fyrir utan það má ekki gleyma því að á morgun, fimm vikum áður en þinginu á að ljúka, er síðasti dagur sem menn geta dreift málum þannig að tryggt sé að þau komist á dagskrá. Það er því verið að reyna að tryggja að þessi mál öll sömul fái vandaða meðferð og nægilegan tíma.