Afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 13:47:39 (5856)

2004-03-31 13:47:39# 130. lþ. 91.91 fundur 445#B afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Lýðræðið er merkisskepna og getur tekið á sig ólíklegustu myndir. Eins og hér hefur komið fram er það ein birtingarmynd lýðræðisins að þingmeirihluti ákveður forgangsröð mála og það er þingmeirihluti sem tekur afstöðu til mála og afgreiðir mál. Það er ein birtingarmynd lýðræðisins og það er hluti af lýðræðinu.

Eitt er ekki rétt sem hér hefur komið fram í umræðunni og það er að málflutningnum er hagað þannig að ætla mætti að eingöngu stjórnarandstæðingar flytji þingmannamál. Það gera líka stjórnarsinnar. Stuðningsmenn ríkisstjórnar flytja þingmannamál einnig og ég sé ekki gerðan greinarmun á þeim.

Ég get sagt hvað hv. félmn. varðar að þau þingmannamál sem þangað hefur verið vísað hafa komið til umræðu þar og þau hafa öll verið send út til umsagnar eins og önnur mál, og að því mun koma að afstaða verður tekin til þeirra. En það er þá líka lýðræðisleg afstaða innan nefndarinnar. Þar tekur bara einfaldlega meiri hlutinn afstöðu til þess. Þannig er lýðræðið: Afgreiðsla bíður. En þau fá vandaða meðferð eins og önnur mál.

Ég get alveg tekið undir það að auðvitað gildir um þennan vinnustað eins og aðra að vinnulag á að vera til stöðugrar endurskoðunar þannig að hér verði skilvirk vinnubrögð. Háttvirt Alþingi er ekkert hafið yfir það frekar en aðrir vinnustaðir. En ég held að í slíkri endurskoðun, sem ég geri ráð fyrir að hv. forsn. sé með til stöðugrar umræðu, hljóti menn einmitt að taka til skoðunar, til þess að auka hér svigrúm til frekari umræðu og frekari málsmeðferða á einstökum málum, hið langa málþóf sem oft og tíðum verður hjá virðulegri stjórnarandstöðu þar sem talað er jafnvel klukkutímum saman, sömu efnisatriðin tuggin upp aftur og aftur í 2. og 3. umr. Það tekur um leið tíma frá öðrum málum. Við skulum hafa allt undir ef við ætlum að endurskoða vinnubrögð þingsins almennt.