Afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 13:51:54 (5859)

2004-03-31 13:51:54# 130. lþ. 91.91 fundur 445#B afgreiðsla þingmannamála úr nefndum o.fl.# (aths. um störf þingsins), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir með hv. málshefjanda Gunnari Örlygssyni um að Alþingi Íslendinga og vinnubrögð þess eru á margan hátt föst í hlekkjum gamals tíma og býsna fornaldarlegs fyrirkomulags, sérstaklega er lýtur að þingtímanum. Ástæða er til að skora á Alþingi að veita máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og Bryndísar Hlöðversdóttur brautargengi þar sem má segja að lögð sé til nútímavæðing á starfsemi Alþingis.

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu er ekki hægt að láta hjá líða að nefna starfsemi nefndanna sérstaklega í þessu samhengi af því að þar fer nú sjálf vinnan fram eftir 1. umr. í þinginu. Sérstaklega vil ég geta þess að um bókstaflega fáránlega lítil fundahöld er að ræða t.d. í þeirri nefnd sem ég sit í, menntmn. Þar liggja fyrir mörg stór og merkileg mál, svo sem þingmál okkar úr Samfylkingunni um Lánasjóð íslenskra námsmanna og þróun iðn-, verk- og listnáms. Þar hafa málin legið frá því á haustdögum, t.d. í tilfelli þáltill. um starfsnámið. Það hefur legið þar inni frá því í október án þess að hafa fengist rætt í nefndinni. Viku eftir viku er boðað fundarfall þó svo að þessi merkilegu og brýnu mál liggi þar fyrir. Í staðinn fyrir að taka sérstaka daga undir þetta aukalega og fjölga þannig fundunum í nefndinni eru þeir sífellt skornir við trog og þessi merkilegu mál daga þar uppi án þess að koma inn í þingið fyrir vorið nema þá rétt undir lokin þegar unnið er hér sleitulaust dögum saman til að klára einstök mál.