Afgreiðsla fjarskiptalaga úr samgöngunefnd

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:06:02 (5865)

2004-03-31 14:06:02# 130. lþ. 92.91 fundur 449#B afgreiðsla fjarskiptalaga úr samgöngunefnd# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé viðeigandi af hálfu hv. þm. Guðmundar Hallvarðsonar að svara í þeim tón sem hv. þm. svaraði og ásaka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að sinna störfum sínum og gera athugasemdir við það hvaða meðferð málið fékk í hv. samgn. Skýringarnar sem hingað til hafa komið fram eru alls ekki trúverðugar. Þar hefur hver fullyrðingin rekist á annarrar horn. Fyrst var skýringin sú að umsögnin frá ríkislögreglustjóra hafi ekki komið nægilega snemma fram og ekki hafi verið vitað af henni þegar nefndin tók ákvörðun í málinu. Síðan kom þetta sem hv. þm. bendir á með afstöðu Persónuverndar. Ég held því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson þurfi að útskýra mál sitt betur.

Það sem skiptir kannski mestu máli er að hv. samgn. taki málið til ítarlegrar umfjöllunar, skoði það vandlega, (Gripið fram í.) en ég tel alls ekki viðeigandi, virðulegi forseti, að hv. þm. sé að gera því skóna að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sé að fara á einhvern óeðlilegan hátt fram í málinu og mér finnst ósmekkleg þau orð að hún eigi sér þann draum heitastan að sérstakur rannsóknardómur starfi á hinu háa Alþingi. Þingmanninum til upplýsingar er ákvæði sem gerir ráð fyrir sérstakri rannsóknanefnd í 39. gr. stjórnarskrárinnar og hún er ekki uppfinning hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.