Fölsun listaverka

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:11:17 (5867)

2004-03-31 14:11:17# 130. lþ. 92.1 fundur 506. mál: #A fölsun listaverka# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir fsp. til mín en þær eru tvenns konar. Annars vegar hvernig ég komi til með að bregðast við aukinni hættu á því að fölsuð listaverk verði á boðstólum á listaverkamarkaði og hvort til greina komi að breyta lögum á þann veg að t.d. myndverk sem færðar hafa verið sönnur á að séu fölsuð yrðu merkt sérstaklega.

Ef við förum yfir þá hættu sem liggur fyrir varðandi þessar meintu falsanir og falsanir sem þegar er búið að sanna er hættan í rauninni tvenns konar: Bæði brýtur fölsun listaverka gegn höfundarétti viðkomandi listamanna og síðan geta neytendur verið blekktir til að kaupa listaverk sem hafa verið fölsuð. Það er sem sagt annars vegar verið að brjóta á listamanninum og hugverkarétti hans og hins vegar neytandanum.

Af þessu tilefni vil ég taka fram að það hefur engin ákvörðun verið tekin af minni hálfu um aðgerðir gegn viðskiptum með fölsuð listaverk á listaverkamarkaði en við fylgjumst afar náið með framvindunni sem á sér stað og vitum öll til hvaða aðstæðna ég er að skírskota til.

Bent skal á að sala listaverka í atvinnuskyni fer ýmist fram með sölu þeirra í listmunahúsum eða listmunauppboðum. Um starfsemi listmunahúsa og uppboðshaldara listaverka fer eftir lögum um verslunaratvinnu frá 1998 en framkvæmd laganna heyrir undir iðn.- og viðskrn.

Varðandi ráðstafanir gegn fölsuðum listaverkum þegar slíkt hefur sannast fyrir dómi skal tekið fram að það er á valdi dómara í opinberum málum þar sem ákært er fyrir fölsun listaverks að mæla fyrir um upptöku eða eyðileggingu þess í samræmi við 55. gr. höfundalaganna. Telja verður með hliðsjón af lögum um verslunaratvinnu og lögum um neytendakaup frá árinu 2003 að gera megi skýlausa kröfu til þess sem selur listaverk í atvinnuskyni að upplýsa kaupanda um að listaverk sé falsað áður en kaupin fara fram. Sé það ekki gert kann söluaðili að baka sér refsiábyrgð samkvæmt 248. gr. hegningarlaganna.

Gera verður þann fyrirvara að framangreind úrræði höfundalaganna um upptöku og eyðingu listaverka eigi ekki við gagnvart þeim sem í grandaleysi hefur eignast falsað verk, sbr. 55. gr. fyrrnefndra höfundalaga.

Síðan spyr hv. fyrirspyrjandi hvort til greina komi að breyta lögum á þann veg að myndverk sem færðar eru sönnur á að séu fölsuð verði merkt sérstaklega eða gerð upptæk á þeim grundvelli að um stuld á hugverkarétti sé að ræða. Af þessu tilefni skal tekið fram að hér koma bæði til álita breytingar á höfundalögum og lögum um verslunaratvinnu. Varðandi það atriði hvort sporna megi gegn viðskiptum með fölsuð listaverk til breytinga á höfundalögum hef ég ákveðið að beina erindi um þetta atriði til höfundaréttarnefndar sem er nefnd fimm sérfróðra manna um höfundarétt og starfar samkvæmt 58. gr. höfundalaga. Nefndinni er ætlað að vera menntmrh. til ráðuneytis um höfundarétt og þess vegna tel ég rétt og viðeigandi að höfundaréttarnefndin fari yfir málið.

Varðandi aðrar lagabreytingar er kynnu að sporna við viðskiptum með fölsuð listaverk hafa komið fram hugmyndir um að skylda listmunahús og uppboðshaldara listmunauppboða að upplýsa væntanlega kaupendur um eigendasögu listaverka sem eru til sölu. Slíkar hugmyndir lúta hins vegar að breytingu á lögum um verslunaratvinnu sem falla undir iðn.- og viðskrh. og því tel ég rétt og eðlilegast að iðn.- og viðskrh. svari fyrir hvort slíkar lagabreytingar komi til greina.

Síðan er önnur spurning frá hv. fyrirspyrjanda hver réttur listamanna og annarra rétthafa sem hafa þurft að sæta því að á markaði hafi verið verk með fölsuðu höfundarnafni sé. Í höfundarétti felast tvenns konar einkaréttindi fyrir höfunda, þ.e. annars vegar rétturinn til að njóta arðs af fjárhagslegri nýtingu verks og hins vegar sæmdarréttur sem felst m.a. í þeim rétti höfunda til að njóta viðurkenninga fyrir verk sitt og þurfa ekki að sæta breytingum á því eða afbökun. Í spurningunni felst því hvort sæmdarréttur listamanna og annarra rétthafa teljist vera svo sterkur að gera megi um það kröfu að fölsuð höfundarmerking listaverks verði afmáð.

Hér kemur að mínu mati til álita hvort við eigum að líta til 55. gr. höfundalaga sem hljóðar einhvern veginn á þann veg að í stað upptöku til afhendingar séu munir eða eintök ónýtt að öllu leyti eða nokkru, eða gerð á annan hátt óhæf til hinna ólöglegu nota. Það má ákveða þetta sem sagt. Ekki hefur á það reynt svo kunnugt sé hvort beita megi þessu ákvæði til að krefjast þess að fölsuð höfundarmerking verði afmáð af listaverki. Um það verða dómstólar að skera úr eftir kröfu ákæruvaldsins í ákæruskjali eða eftir kröfu rétthafa í einkamáli. Taka ber fram að við síðari spurningunni veiti ég svar með fyrirvara þar sem ekki er kunnugt um að fjallað hafi verið einmitt um þetta tiltekna atriði um að afmá merkingu fyrir hérlendum dómstólum.