Tækniháskóli Íslands

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:37:26 (5876)

2004-03-31 14:37:26# 130. lþ. 92.3 fundur 766. mál: #A Tækniháskóli Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og einnig sumu í svörum hæstv. ráðherra. Ég tek einkanlega undir þau skýru viðhorf hennar að vel kæmi til greina, og væri æskilegt raunar, að skipa menntastofnunum og öðrum opinberum eða hálfopinberum stofnunum sess í nágrannabyggðarlögum Reykjavíkur.

Hæstv. ráðherra rakti forgangsröðun sérfræðinga. Sú forgangsröð rennur alltaf í svipaðan farveg. Það á að skipa þessum stofnunum sess nærri stöðum þar sem eitthvað annað er fyrir. Menn eru fastir í þeirri hringrás og þess vegna er sérstakt fagnaðarefni að hæstv. ráðherra skuli fús til og reiðubúinn að skoða það af fullkominni alvöru að brjótast út úr þeirri hringrás að staðsetja opinberar stofnanir í Reykjavík og koma þeim annars vegar suður í Hafnarfjörð eða í Mosfellsbæ eftir efnum og ástæðum.