Tækniháskóli Íslands

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:38:34 (5877)

2004-03-31 14:38:34# 130. lþ. 92.3 fundur 766. mál: #A Tækniháskóli Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að staldra við það hve mikið er búið að leggja í góðar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og út fyrir höfuðborgarsvæðið. Það er hægt að líta upp til Akraness í því sambandi. Það er farið að verða auðvelt að fara á stuttum tíma á milli staða og ef vilji er til er hægt að skapa nýjar aðstæður í skólamálum hjá þeim bæjum sem ég vék að áðan.

Ég verð að segja að mér finnst gott að heyra hve faglega hefur verið haldið á þessum málum, þ.e. miðað við það ferli sem hingað til hefur farið fram og ráðherra lýsti. Þó hlýt ég að staldra við það að litið skuli til Keldnaholts. Er það örugglega best fyrir skóla að vera bætt inn í samfélag eins og þar hefur þegar vaxið upp? Á Tækniháskólinn heima þar? Er ekki ástæða til að líta jafnframt til mikils rýmis og fagurs umhverfis þar sem nýtt skólasvæði er í undirbúningi, með miklu rými fyrir íbúðir og annað, eins og ég benti á að á sér stað í Hafnarfirði.

Það sem mig langar að spyrja ráðherra um í síðari ræðu minni er: Kemur virkilega til greina að Tækniskólinn verði áfram í leiguhúsnæðinu? Mér fannst hálfpartinn að það kæmi fram. Hefur verið sest yfir það hvenær eigi að taka afstöðu til framtíðarstaðsetningar skólans?

Að öðru leyti vil ég taka undir með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni. Ég er tiltölulega ánægð með svör hæstv. ráðherra þrátt fyrir að ekki sé komin niðurstaða í þetta mál og ekki sé mikill vilji, miðað við það sem hingað til hefur gerst, til að líta til uppbyggingar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur.