Framhaldsskóli í Mosfellsbæ

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:44:08 (5880)

2004-03-31 14:44:08# 130. lþ. 92.4 fundur 768. mál: #A framhaldsskóli í Mosfellsbæ# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Mosfellsbær tók á sínum tíma þátt í stofnkostnaði við byggingu Borgarholtsskóla ásamt Reykjavíkurborg og ríkinu. Hlutur Mosfellsbæjar var 12% af áætlaðri kostnaðarhlutdeild sveitarfélaganna við skólann. Jafnframt aðild Mosfellsbæjar að Borgarholtsskóla var gert samkomulag um að nemendur úr Mosfellsbæ ættu aðgang að öðrum skólum í Reykjavík til jafns við Reykvíkinga. Síðan var landið allt gert að einu upptökusvæði, það gerðist í millitíðinni í málum framhaldsskólanna.

Á síðasta ári fóru fram óformlegar umræður á milli ráðuneytisins og forsvarsmanna Mosfellsbæjar um möguleika á byggingu framhaldsskóla í Mosfellsbæ en í dag eru hvorki formlegar né óformlegar viðræður í gangi út af því máli þó því sé haldið vakandi af hálfu forráðamanna bæjarins.

Ég vil fyrir mitt leyti segja að ráðuneytið hefur ekki á prjónunum að gangast fyrir byggingu framhaldsskóla í Mosfellsbæ á allra næstu árum. Hins vegar mun ráðuneytið ekki skorast undan viðræðum við Mosfellsbæ um byggingu framhaldsskóla ef eftir því verður leitað. Ég vil hins vegar ítreka að ég kem til með að ganga óbundin til slíkra viðræðna. Ég loka því engan veginn á viðræður um framhaldsskóla í Mosfellsbæ en það má velta því fyrir sér hvort það sé tímabært eins og sakir standa, m.a. í tengslum við stærð bæjarins. Við erum fyrst og fremst að hugsa um það ef við komum upp framhaldsskóla í Mosfellsbæ þá verði hann raunverulegur og góður valkostur við aðra framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Framhaldsskóli í Mosfellsbæ mun að öllum líkindum verða að veruleika eftir einhver ár en eins og staða er í dag tel ég það ekki tímabært.