Framhaldsskóli í Mosfellsbæ

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:49:49 (5884)

2004-03-31 14:49:49# 130. lþ. 92.4 fundur 768. mál: #A framhaldsskóli í Mosfellsbæ# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason velti upp hér gríðarlega stórri og merkilegri spurningu um það hvort við eigum að flytja framhaldsskólann yfir til sveitarfélaganna. Eins og staðan er í dag tel ég það ekki tímabært einfaldlega út af nægum verkefnum sem sveitarfélögin eiga núna, eins og staðan er í dag, fullt í fangi með að sinna. Verkefni hafa verið flutt yfir til sveitarfélaganna og ég held að við eigum að láta tíma líða og leyfa þessum málum að þroskast. Við erum að tala líka um önnur málefni sem eru mjög merkileg og sem hugsanlega þá fara einnig yfir til sveitarfélaganna, t.d. málefni fatlaðra. Að mörgu er því að hyggja þegar talað er um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Þar verðum við að stíga varlega til jarðar.

Ég ítreka fyrra svar mitt um framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Ég sé fyrir mér að í ört stækkandi bæ eins og Mosfellsbær er munu ríkið og sveitarfélagið Mosfellsbær að sjálfsögðu fara í að ræða um framhaldsskóla. En eins og staðan er í dag tel ég það ekki tímabært, sér í lagi með það í huga að íbúar á framhaldsskólaaldri í Mosfellsbæ verða að hafa raunverulegan valkost. Ef við færum að byggja upp framhaldsskóla núna þá yrði hann eins og staðan er í dag kannski ekki nægilega sterkur valkostur við alla þá góðu skóla sem eru á Reykjavíkursvæðinu.