Fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:51:50 (5885)

2004-03-31 14:51:50# 130. lþ. 92.5 fundur 803. mál: #A fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi VF
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson):

Virðulegi forseti. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands eru landssamtök og í þeim eru um 150 þúsund félagsmenn. Innan sambandsins eru 24 sérsambönd og stefnt er að því á næsta þingi ÍSÍ 24. apríl að stofna 25. sérsambandið.

Sérsambönd eru í dag æðstu aðilar í sínum íþróttagreinum. Áður fyrr var íþróttastarfið fyrst og fremst í héraðssamböndum og á vegum íþróttabandalaga en á síðustu áratugum hefur það þróast í það að sérsamböndin eru mjög mikilvægur hlekkur í íþróttastarfinu. Þau stýra viðkomandi íþróttagreinum, mótahaldi, uppbyggingu, fræðslu og útbreiðslustarfsemi.

Sérsamböndin eru misstór og gengur misvel að afla sér tekna til rekstursins. Sérsambönd hafa umsjón með þátttöku þjóðarinnar í íþróttagreinum á erlendri grund. Þau sinna mörgum verkefnum og eru því miður að mestu leyti rekin eingöngu af sjálfboðaliðum. Tími þeirra fer að mestu leyti í að reyna að halda í horfinu, sinna daglegum rekstri, framþróun og útbreiðslustarf bíður.

Á fjármálaráðstefnu ÍSÍ fyrir nokkrum árum hélt ég því fram að frumkvæði um fastar fjárveitingar til íþróttahreyfingarinnar ætti að koma frá ríkisvaldinu. Mér er minnisstætt að hæstv. menntmrh. sem þá var óbreyttur þingmaður taldi hins vegar að frumkvæðið ætti fyrst og fremst að vera hjá íþróttahreyfingunni sjálfri.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur sýnt frumkvæði í beiðni til fjárln., t.d. síðasta haust, um fjárveitingar til sérsambanda. Þeirri beiðni var því miður hafnað. En enn á ný hefur ÍSÍ sýnt frumkvæði með bréfi til menntmrn. og fjárln. þann 12. febr. sl. þar sem fram kemur beiðni um sérstakt fast fjárframlag til sérsambanda.

Í þessu sambandi spyr ég, frú forseti:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir auknum fjárveitingum til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands? Ef svo er, hvenær og um hvaða fjárhæðir er að ræða?``