Fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:59:07 (5889)

2004-03-31 14:59:07# 130. lþ. 92.5 fundur 803. mál: #A fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:59]

Kristján L. Möller:

Frú forseti. Fyrir það fyrsta vil ég taka undir með og þakka hæstv. menntmrh. fyrir yfirlýsinguna sem hún gaf hér um árlega samráðsfundi með forustu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi, hvort heldur ÍSÍ eða sérsambanda. Það held ég að sé mjög til bóta og til fyrirmyndar og vona að út úr því komi eitthvað annað en bara svona glansfundur vegna þess að sannarlega þarf að taka á mörgum málum.

Hv. þm. Valdimar L. Friðriksson vekur hér athygli á einu mjög góðu máli, þ.e. framlögum til sérsambanda sem berjast í bökkum. Annað atriði sem ég vil nefna og er ekki síður mikilvægt atriði á sviði íþrótta er ferðajöfnunarsjóður. Ferðalög og kostnaður við þau er að sliga mjög mörg íþróttafélög og gerir það að verkum að fjöldi manns getur ekki tekið þátt í íþróttakappleikjum út af hinum geysiháa ferðakostnaði.

Annað mætti nefna í þessu sambandi --- það var í fréttum í dag --- og er ekki verkefni eins sérsambands eins og Knattspyrnusambands Íslands, þ.e. að fjármagna viðbyggingu við stúkuna í Laugardalshöllinni sem við eigum auðvitað að vera stolt af að er þjóðarleikvangur okkar Íslendinga. Það á að vera verkefni okkar allra.