Fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:02:46 (5892)

2004-03-31 15:02:46# 130. lþ. 92.5 fundur 803. mál: #A fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi VF
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntmrh. fyrir ágæt svör og öllum þeim þingmönnum er tóku þátt í umræðunni. Ég fagna að sjálfsögðu sérstaklega yfirlýsingunni um frumkvæði ráðherra að hafa samráðsfundi með sérsamböndum ÍSÍ.

Hér hefur aðeins verið rætt um tómstunda- og æskulýðsmál. Ég minntist á það áðan að íþróttahreyfingin er nú einu sinni stærstu landssamtök Íslands, telur yfir 150 þús. félagsmenn, og samhliða íþróttastarfi fer þar að sjálfsögðu fram tómstunda- og æskulýðsstarf. Ég frábið mér það að þegar menn sækjast eftir auknum styrkjum til íþróttahreyfingarinnar að þá þurfi yfirleitt að koma og reyna að teygja það í eitthvað annað, hvort sem um er að ræða æskulýðsstörf eða menningarstörf.

Við verðum að átta okkur á að sérsamböndin sinna þarna mjög mikilvægu starfi. Þau bera ábyrgð á keppni íþróttamanna fyrir Íslands hönd á erlendum vettvangi. Þeir sem starfa hvað mest þar, þ.e. stjórnarmenn og aðrir, eru í raun og veru að sinna í sjálfboðaliðastarfi þjónustu fyrir ríkið sjálft. Það er í sjálfu sér grunnástæðan fyrir því að slíkt starf á hreinlega að vera á föstum fjárlögum, þ.e. menn eiga ekki að þurfa að reka alþjóðlega íþróttastarfsemi eða keppni á erlendri grundu í sjálfboðaliðastarfi einu saman.