Fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:04:27 (5893)

2004-03-31 15:04:27# 130. lþ. 92.5 fundur 803. mál: #A fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það sem komið hefur fram hjá hv. þm. Ástu Möller og hv. 6. þm. Norðvest., Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, að æskulýðs- og tómstundastarf sé mjög mikilvægt fyrir allt okkar góða samfélag. Ég dreg ekki dul á að það hefur gríðarlega mikla þýðingu, eins og hefur m.a. komið fram í mjög góðri úttekt og skýrslu sem hv. þm. Ásta Möller stóð fyrir að gefa út og vinna fyrir menntmrn. Á hinn bóginn fjöllum við hér um fyrirspurn varðandi íþróttastarf og þá hljótum við að geta rætt um íþróttir án þess endilega að teygja annað inn í og það er það sem ég ætla að reyna að gera.

Ég ítreka það að á síðustu missirum og árum höfum við stóraukið framlög til íþróttamála almennt. Við erum búin að efla afrekssjóð. Við erum líka að efla íþróttamál og íþróttahreyfinguna á annan hátt í gegnum ungmennafélögin, sem fyrrverandi kandídat til formanns UMFÍ veit mætavel, og svo má lengi telja, m.a. með uppbyggingu íþróttavalla víðs vegar um landið. Það eru allir tilbúnir, og það er mjög jákvætt, að koma með góðar tillögur og sumar hverjar raunhæfar til þess að efla og styrkja íþróttahreyfinguna og íþróttastarfið í landinu, m.a. eins og menn hafa verið að tala um ferðasjóð íþróttafélaga. En þá spyr maður á móti: Er ekki rétt að íþróttahreyfingin forgangsraði líka sjálf innan síns ramma og segi: Gott og vel, við fáum aukið fjármagn en í hvað á það að fara? Á það að fara í ferðasjóð íþróttafélaga? Á það að fara í uppbyggingu á íþróttavöllum? Ég held að sú pólitíska íþróttastefna sé mál sem íþróttahreyfingin verður sjálf að takast á við, því við höfum takmarkaða fjármuni sem fara í þessi mál, við verðum að horfast í augu við það, og þá verðum við að forgangsraða, bæði við stjórnmálamennirnir og íþróttahreyfingin sjálf.