Auglýsingar í grunnskólum

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:09:55 (5895)

2004-03-31 15:09:55# 130. lþ. 92.6 fundur 805. mál: #A auglýsingar í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að hreyfa þessu sérstaka máli. Menntmrn. hefur nýlega fengið bréf frá grunnskóla þar sem vakin er athygli ráðuneytisins í aukinni ásókn ýmissa fyrirtækja til þess að auglýsa beint eða óbeint í grunnskólunum. Jafnframt var ráðuneytið spurt hvort komið hafi til tals að semja reglur á landsvísu til að takmarka ásókn einkafyrirtækja í grunnskólana.

Ráðuneytið svaraði því til að ekki hefði komið til tals að menntmrn. semji slíkar reglur á landsvísu, enda skorti ráðuneytið heimildir til þess. Ráðuneytið telur eðlilegt að skólastjóri taki í hverjum skóla ákvarðanir um hvaða auglýsingar eða tilkynningar skuli heimilaðar í skólum. Ráðuneytið telur til fyrirmyndar að hver skóli eða sveitarfélag setji sér verklagsreglur í þeim efnum og að þær reglur séu vel kynntar meðal nemenda, starfsfólks skóla og foreldra. Eðlilegt er að birta slíkar verklagsreglur í skólanámskrá skólans.

Ég vil einnig vekja athygli á því að skipaður var starfshópur af samráðsnefnd grunnskóla árið 1999 sem hafði það hlutverk að fjalla um rannsóknir og kannanir í grunnskólum. Hann setti fram viðmiðunarreglur um rannsóknir og kannanir í grunnskólum og var þessi skýrsla starfshópsins birt í maí árið 2000. Samkvæmt þeim viðmiðunarreglum sem settar voru fram er það skólastjóri sem tekur ákvarðanir um hvaða kannanir heimilað er að leggja fyrir nemendur eða kennara, eða annað starfsfólk í skólunum sem heyrir undir hann á skólatíma, enda hafi sveitarstjórn ekki ákveðið annað fyrirkomulag.

Ég tel því í rauninni eðlilegt að sambærilegt verklag sé viðhaft vegna dreifingar auglýsinga í grunnskólum og tel að grunnskólarnir, sem eru á vegum sveitarfélaganna, eigi að gera þetta í samvinnu við foreldra, í samvinnu viðkomandi sveitarfélög og setja sér sjálfir slíkar reglur.

Ef samráðsnefnd grunnskóla tekur þetta mál upp aftur við ráðuneytið mun ég að sjálfsögðu fara yfir það en eins og staðan er í dag tel ég eðlilegast að slíkt sé hjá sveitarfélögunum sjálfum og grunnskólunum sjálfum að setja nákvæmlega niður hvaða reglur það eru sem eiga að gilda en ekki að því verði miðstýrt beint úr ráðuneytinu.