Auglýsingar í grunnskólum

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:17:13 (5900)

2004-03-31 15:17:13# 130. lþ. 92.6 fundur 805. mál: #A auglýsingar í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin og þeim sem tóku þátt í umræðunni sérstaklega fyrir innlegg þeirra. Ráðherra sagði að ekki hefði komið til tals að setja slíkar reglur því menntmrn. skortir heimildir til þess. Ég get alveg sæst á það en bendi jafnframt á, fyrst hæstv. viðskrh. er komin í salinn og ég hef rætt það mál við hana áður, að viðskrh. hefur heimild samkvæmt samkeppnislögum að setja reglur um börn og auglýsingar.

Ég get hins vegar vel sæst á það sem hæstv. menntmrh. sagði og kom jafnframt fram í máli ýmissa þingmanna, að setning slíkra reglna eigi að vera á vettvangi skólastjórnenda. Þá geri ég ráð fyrir að í framhaldi af þessu muni menntmrh. beina slíkum tilmælum til skólanna og standi fyrir umræðu um þessi mál því ég held að mjög mikilvægt sé að skoða málin í þessu samhengi.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni sé ég ákveðna þróun frá því ég tók málið upp fyrir þremur árum. Það er aukin áleitni auglýsinga gagnvart börnum því auglýsendum er náttúrlega ljóst að það er auðvelt að hafa áhrif á börn og þeim er einnig kunnugt um að börn hafa töluverð áhrif á hvernig peningum foreldranna og fjölskyldnanna er varið bæði í stóru og smáu. Við sjáum æ oftar að auglýsingum fyrir vörur sem ætlaðar eru fullorðnum er beint að börnum. Jafnframt gera auglýsendur sér grein fyrir því að börnin eru stórneytendur og kaupendur framtíðarinnar.

Ég bendi á að við megum ekki sofa á verðinum því þetta er heill iðnaður erlendis. Það er meira að segja heilt hugtak yfir hann sem heitir ,,Kidvertisers`` samanber ,,Advertisers`` og eru heilu ráðstefnurnar og fundirnir haldnir til þess að finna leiðir til að fara inn fyrir varnir barnanna og ná áhrifum auglýsinganna til þeirra. Ég held að við séum sammála um, og ég heyri það á umræðunni, að við viljum halda auglýsingum utan grunnskólanna og beita ákveðnum ráðum í þeim efnum.