Byggðakjarnar

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:30:25 (5905)

2004-03-31 15:30:25# 130. lþ. 92.8 fundur 704. mál: #A byggðakjarnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulega frú forseti. Upplýsingar og fjarskipti fyrir alla, segir hæstv. ráðherra iðnaðarmála.

Í nýlegri fyrirspurn minni til samgrh. á dögunum, um háhraðatengingar og aðgengi Íslendinga að þeim kemur fram að upp undir 8% landsmanna eru án háhraðatenginga. Íbúar þeirra staða, þeirra dreifðu byggða, eru dæmdir til að búa í annars flokks byggðarlögum hafi þeir ekki aðgengi að þeirri fjarskiptatækni sem er grundvallaratriði þess að fólk geti nýtt sér tækifæri nútímans, tækifæri tækninnar og tækifæri upplýsingabyltingarinnar.

Hingað til hefur þetta fólk fengið tóm orð, innantómar yfirlýsingar. Stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau ætli ekkert að gera til að tryggja þessum byggðarlögum aðgengi að háhraðatengingum. Allt tal um að styrkja byggðir, veita fólki aðgengi að upplýsingahraðbrautinni og nýjum tækifærum framtíðarinnar eru innihaldslaus og án nokkurrar staðfestu.