Jöfnun búsetuskilyrða á landinu

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:54:39 (5919)

2004-03-31 15:54:39# 130. lþ. 92.9 fundur 773. mál: #A jöfnun búsetuskilyrða á landinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Hér er verið að hreyfa mjög þörfu máli og ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að vekja máls á þessu.

Við í Frjálslynda flokknum við höfum aldrei velt okkur svo mikið upp úr einhverjum sértækum aðgerðum til að jafna búsetuskilyrði í landinu. Við teljum einfaldlega að ef við tryggjum að fólkið í landinu fái að lifa af sínum fremstu auðlindum ... (ÖS: Þið eruð á móti brottkasti.) Við erum á móti brottkasti en það hefur ekki áhrif á búsetu í landinu. Við höfum viljað tryggja fólkinu í landinu aðgang að sínum fremstu auðlindum þannig að það hafi atvinnufrelsi til að nýta þær og ef það er tryggt munu hlutirnir að mestu leyti leysast af sjálfu sér. Það er hins vegar skylda stjórnvalda að sjá til þess að samgöngur séu í lagi, heilbrigðismál séu í lagi, menntamál séu í lagi og að fjarskipti séu í lagi.

Ef við tryggjum atvinnulífinu ramma til að blómstra þá er fólk sem býr úti á landi, þetta ágæta fólk, fullfært um að bjarga sjálfu sér.

Ég vil svo lýsa yfir samúð minni með Hríseyingum vegna þess sem dynur yfir þá í dag og vil minna á að kvótinn var hirtur af þeim fyrir nokkrum árum og farið með hann til Dalvíkur.