Íslenski þorskstofninn

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:10:11 (5926)

2004-03-31 18:10:11# 130. lþ. 92.10 fundur 630. mál: #A íslenski þorskstofninn# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:10]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Það er ekki furða að menn spyrji um íslenska þorskstofninn og stöðu hans. Þegar þessari bók er flett, skýrslu Hafró, er kaflinn um þorskinn ekki sérlega upplífgandi.

Ég held að það sé engum vafa undirorpið að eitthvað er verulega mikið að þegar svo illa gengur að fá almennilegan afrakstur úr þessum mikilvægasta nytjastofni okkar Íslendinga. Við sjáum það t.d. ef við lítum á raðtölur Hafró að meðalþyngd þorsks árið 2003 var undir meðaltali áranna 1985--2002. Það gæti t.d. skýrt þá fullyrðingu hv. þm. Gunnar Örlygssonar að það sé ætisskortur á miðunum. Ég hef áður úr þessum ræðustól varað við því að menn væru að veiða allt of mikið af loðnu, taka of mikla orku út úr vistkerfinu og þannig veiða undan stofninum.

Ég hef í sjálfu sér ekki mikla trú á að hér sé um ofveiði að ræða. Ég bendi enn og aftur á reynslu Færeyinga. Menn töluðu lengi um að þar væri ofveiði en hvað sjáum við í dag? Í gær tók sjútvrh. undir það að sá stofn væri hvað sterkastur í Norður-Atlantshafi í dag. Hvar er sú ofveiði?