Íslenski þorskstofninn

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:14:20 (5929)

2004-03-31 18:14:20# 130. lþ. 92.10 fundur 630. mál: #A íslenski þorskstofninn# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:14]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessum jafnstöðuafla, eins og hann hefur verið í þorski undanfarin 10 ár.

210 þús. tonn, sem jafnstöðuafli undanfarin tíu ár, er náttúrlega allt önnur tala heldur en þær sem sáust 10 árum á undan kvótakerfinu. Ég hef oft velt fyrir mér hvernig á því standi að svokallaðir hagsmunaaðilar í útvegi skuli ekki velta fyrir sér af meiri alvöru en mér virðist gert hve seint hefur gengið að byggja upp þennan verðmæta stofn sem þorskstofninn er.

Kvótakerfið hefur verið við lýði það lengi að við erum farnir að tala um fleiri en eina kynslóð þorska. Það sem gerðist fyrir kvótakerfi hefur því kannski ekki megináhrif á það sem er að gerast núna. En mér finnst vanta raunverulega gagnrýnar spurningar um kerfið frá hagsmunaaðilum. Hvernig í ósköpunum stendur á því að svo hægt gengur að byggja stofninn upp þegar skilyrðin í sjónum eru með því besta sem við þekkjum?