Eldisþorskur

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:20:14 (5932)

2004-03-31 18:20:14# 130. lþ. 92.11 fundur 675. mál: #A eldisþorskur# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi JGunn
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson):

Frú forseti. Þorskeldi á Íslandi vex stöðugt fiskur um hrygg og það er gott því eldið getur verið góð viðbót við veiðar á hinum villta stofni. Í dag fer þetta þannig fram að það er að mestu leyti villtur þorskur sem veiddur er og alinn er áfram í kvíum og ég tel ekki þörf á að hafa miklar áhyggjur af því, sérstaklega ef fiskurinn sem um ræðir er veiddur á svæði sem er í námunda við staðsetningu kvíanna. Það er mikil framþróun í þorskeldi og áhugaverðir hlutir að gerast. Hafró er að búa til þorskseiði í tilraunastöð sinni í dag, þ.e. þeir safna saman hrognum, frjóvga og klekja út seiði, venja þau við þurrfóður og síðan eru þau nýtt í áframeldi vítt og breitt um landið.

Nú er það orðið viðurkennt og vitað að í kringum Ísland eru staðbundnir þorskstofnar og ástæða til að velta upp þeirri spurningu hvort við gætum verið að stuðla að einhverri blöndun stofna þegar fiskur sleppur úr kvíum umfram það sem annars hefði orðið ef ekki hefði verið átt við eldi. Það er þekkt og vitað að þorskur sleppur úr kvíum. Það er alltaf einhver hluti fisks í eldiskvíum sem sleppur úr kvíunum.

Mig langar, með leyfi forseta, að fara aðeins með smátexta sem ég hnaut um á Intrafish 19. febrúar, en þar segir að eldisþorskur finni alltaf flóttaleiðir:

,,Að sögn norskra þorskeldisaðila er þorskur í eldiskví naskur á að finna sér leið út úr kvínni og er meira um að þorskur sleppi burt en lax. Myndavélar í kvíunum hafa sýnt að þorskurinn syndir meðfram nótaveggnum og leitar að gati. Ef gat er á veggnum finnur þorskurinn það og treður sér út og fleiri fylgja í kjölfarið. Ef þorskurinn finnur ekki gat, byrjar hann að naga þræðina í netinu og rekja þá upp. Í ljós kom jafnvel að ef sá sem byrjaði að naga hættir því, kemur annar á nákvæmlega sama staðinn og heldur áfram að naga og svo koll af kolli þar til gat myndast. Ýmsar leiðir hafa verið reyndar til að styrkja kvíarnar, t.d. með því að hafa þær tvöfaldar og með sverari net með minni möskvum og með því að nota grófa þræði í netið. Þrátt fyrir þetta virðist þorskurinn finna leiðir til þess að sleppa.``

Það er einnig markmið í öllu eldi að auka vaxtarhraða fiska og auka afurðir sem af þeim nýtast. Þetta er oft og tíðum gert með því að hræra í kynþroska, velja saman einstaklinga sem gefa aukinn vöxt, og á síðari tímum með erfðaefnisbreytingu. Því tel ég fulla ástæðu til að spyrja hæstv. sjútvrh.:

1. Hverjir hafa eftirlit með því hvort eldisþorskur sleppur í einhverjum mæli úr kvíum?

2. Hefur verið metið hvort og þá hvaða hættur geti stafað af því ef kynbættur eldisþorskur sleppur í miklum mæli úr kví og blandast staðbundnum þorskstofnum?

3. Hefur ráðherra í hyggju að setja reglur um leyfilegar kynbætur á eldisþorski