Eldisþorskur

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:30:46 (5937)

2004-03-31 18:30:46# 130. lþ. 92.11 fundur 675. mál: #A eldisþorskur# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi JGunn
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:30]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í umræðunni og eins hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör sem hann bar hér fram.

Í raun hefur ekki tekist enn þá að sýna fram á neina arðsemi af þorskeldi. Kostnaðurinn við að ala þorsk í dag, að framleiða seiði og ala þorsk í kvíum, er einfaldlega of mikill miðað við það afurðaverð sem hægt er að fá fyrir hann þannig að alveg ljóst er að menn þurfa með einhverju móti að ná fram breyttum vexti eða breytingum í eðli þorsksins til að gera þetta eldi arðbært.

Það kom fram í svörum hæstv. ráðherra að eftirlitið væri að mestu í höndum fyrirtækjanna sjálfra og ég treysti þeim svo sem vel til þess að hugsa um að reyna að halda þorskinum inni. En Fiskistofa á þó að hafa hið opinbera eftirlit. Ég held að það vanti reglur um það hvernig tilkynna skuli Fiskistofu t.d. ef fiskur einhverra hluta vegna sleppur vegna slyss úr kvíum eða eitthvað kemur upp í kvíunum sem ekki var við búist, að til séu sem sagt fyrir fram einhverjar viðbragðsáætlanir og áætlanir um það hvernig menn ætla að taka á hlutum ef þetta gerist.

Ráðuneytið hefur ekki lagt fram neina vinnu til að meta hvaða kynbætur eru nauðsynlegar eða hvaða kynbætur á að leyfa á þeim þorski sem ala á í kvíum og miðað við lýsingar mínar hér áðan á því hvernig þorskurinn reynir að sleppa úr kvíunum og reynslu manna af eldi á fiski í kvíum þá held ég að við getum ekki leyft okkur annað en að vera á varðbergi gagnvart því sem þarna getur gerst vegna þess að sjútvrn. er farið að styrkja kynbótastarf í þorski og við hljótum að verða að gera okkur grein fyrir hvað getur gerst ef þorskur í stórum stíl fer að fara úr kvíum.

Það kom fram hér áðan og það er alveg rétt að þorskurinn er hin gáfaðasta skepna meðan hann er í sínu náttúrulega umhverfi í sjónum. Einu heimsku þorskarnir eru þorskarnir á þurra landinu.