Nauðungarvistun

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:46:19 (5942)

2004-03-31 18:46:19# 130. lþ. 92.13 fundur 699. mál: #A nauðungarvistun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:46]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég get svaraði þessari spurningu á mjög einfaldan og skýran hátt. Ég hef ekki í huga að beita mér fyrir breytingum á lögræðislögunum, nr. 71/1997, um þetta atriði. Ég hef hér fyrir framan mig álit sem byggt er á samtölum við lækna og aðra sem að framkvæmd þessara laga hafa komið. Samkvæmt því kemur hvergi fram að nauðsynlegt sé að breyta þessum lögum. Frekar dreg ég þá ályktun af þessum umsögnum að lögin hafi reynst vel og að ekki hafi neitt í sjálfu sér komið fram sem að mati þessara aðila gefi tilefni til breytinga á ákvæðum laganna um nauðungarvistanir.

Ég tók eftir því að hv. fyrirspyrjandi vék sérstaklega að því að það væru þung spor fyrir nána ættingja þeirra sem sæta þessu úrræði að þurfa að stíga skref í þessa átt. En ég veit ekki hvaða hugmyndir aðrar menn hafa um það hverjir eigi að koma að því að beita sér fyrir því að fólk sé beitt þessu úrræði. Það er miklu meira mál en svo að ástæða sé til þess fyrir ráðherrann að lýsa einn skoðun á því, því það þarf að skoða þetta og taka mið af reynslunni sem við höfum frá 1997, fara yfir málin og átta sig á því í samráði við sérfræðinga hvernig eigi að taka á því ef við ætlum að breyta þessu ákvæði.

Að sjálfsögðu er þetta erfitt mál. Ég tek undir það sem fram kom í ræðu hv. fyrirspyrjanda að málið er mjög viðkvæmt og vandmeðfarið. En að ætla að víkka þennan hóp og stækka er líka mjög vandmeðfarið og stórt skref að stíga fyrir löggjafann að taka ákvarðanir um slíkar breytingar. Ég tel því að nauðsynlegt sé í öllu tilliti að stíga varlega til jarðar í þessu máli.