Nauðungarvistun

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:48:28 (5943)

2004-03-31 18:48:28# 130. lþ. 92.13 fundur 699. mál: #A nauðungarvistun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:48]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég get sannarlega tekið undir það með hæstv. ráðherra að það þarf að stíga varlega til jarðar í þessum efnum við breytingar. Ég er alls ekki að leggja til að sá hópur sem þarf að koma að málum við nauðungarvistun einstaklings verði stækkaður. Það sem ég hef fyrst og fremst í huga er að eingöngu sé um að ræða undirritun fagaðila, þ.e. að fjölskylda þess einstaklings sem er nauðungarvistaður þurfi ekki að undirrita beiðni um nauðungarvistun frá aðstandendum. Samkvæmt vitneskju sem ég hef m.a. frá Geðhjálp og fjölskyldum ýmissa þeirra sem hafa verið nauðungarvistaðir á undanförnum tveimur árum, samtölum við þá, þá eru þetta afar þung spor sem hafa orðið til þess að splundra fjölskyldum, einfaldlega vegna þess að sá sem er nauðungarvistaður er í flestum tilvikum svo veikur að hann getur ekki með nokkrum hætti tekist á við það af skynsemi að fjölskyldan hafi undirritað plagg þess efnis að nauðungarvistun skuli eiga sér stað.

Ég efast ekki um að læknar og fagaðilar sem þarna koma að vilja hafa á þessu gott kerfi. En ákvæðinu sem við búum við í dag, þ.e. að fjölskyldur verði að undirrita beiðni um nauðungarvistun, tel ég að þurfi nauðsynlega að breyta, einfaldlega vegna þess álags sem er á fjölskyldu þessara einstaklinga. Þeir eru býsna margir eins og kemur fram í þessum tölum því að 2003 var 91 nauðungarvistaður. Þó sýnir það sig að þeir eru heldur færi hér í samanburði við Norðurlöndin og kannski fyrst og fremst vegna þess að við erum með þessar reglur um fjölskylduna.