Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 10:59:45 (5955)

2004-04-01 10:59:45# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær faglegu og ágætu ábendingar sem komu hérna fram í ræðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur. Við munum að sjálfsögðu fara vel og vandlega yfir þetta mál í nefndinni þegar þar að kemur og fá umsagnir um þau vafaatriði sem fram eru komin.

Fyrst að hæstv. ráðherra nefnir þá miklu umræðu sem átt hefur sér stað um skólagjöld og fjármögnun grunnnáms í Háskóla Íslands, sem og framhaldsnáms, en sem ekki hefur náð með neinum skýrum hætti hingað inn í þingsali þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir ákvað ég að koma í andsvar við ráðherra. Óhætt er að halda því fram að yfirvöld menntamála hafi verið á harðahlaupum undan þeirri pólitísku meginforustu sem þeim ber að taka í þessu máli og þeirri ábyrgð sem yfirvalda er að axla í því. Hérna erum við að ræða um stórpólitískt menntamál og í allri umræðu um sjálfstæði Háskóla Íslands þýðir það alls ekki að varpa eigi þeim beiska bikar í fangið á háskólanum að hann eigi að hafa einhverja forustu um það hvort hér eigi að taka upp skólagjöld sem augljóslega hafi það í för með sér að verulega verði vegið að jafnrétti til náms auk þess sem verið er að fara klárlega fjallabaksleið að því að auka framlög til skólans þar sem lánað yrði fyrir hluta af þessu. Það yrði mjög dýrt. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka af allan vafa um viðhorf hennar í þessum málum og veita þá pólitísku forustu sem henni ber að gera í málefnum Háskóla Íslands og skýra það hvernig hún sjái Háskóla Íslands fjármagna kennslu sína í framtíðinni en bíða ekki eftir einhverjum fundum ofan úr skóla. Það er ekki háskólans að taka ákvörðun um þetta eða hafa forustu í þessu máli. Það er menntamálayfirvalda að axla þessi pólitísku skinn þó að þau séu þung og erfið að bera og veita skýra pólitíska forustu um það hvort Háskóli Íslands eigi að taka upp aukin skólagjöld eða ekki.