Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 11:04:12 (5957)

2004-04-01 11:04:12# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[11:04]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að hæstv. ráðherra skuli lýsa því yfir að ekki sé sjálfgefið að tekin verði upp skólagjöld við Háskóla Íslands. Ýmsum hefur virst það á þróun undanfarinna ára að verið sé að svelta háskólann út í það horn og hann sjái sér ekki aðra kosti færa en að óska heimildar til aukinna skólagjalda til að halda sjó í þeirri samkeppni sem er á íslenskum háskólamarkaði, bara til að halda lágmarksgæðum kennslunnar. Skólagjöld eru augljóslega ekki lausnin við allar deildir skólans. Það gefur augaleið. Margt bendir til þess að skólagjöld í auknum mæli á hvaða deild sem er yrði skólanum einungis til tjóns og einskis annars.

Hæstv. ráðherra segir að háskólinn eigi að hafa forustu um þau mál sjálfur, eigi að óska eftir heimildum til skólagjalda og veita pólitíska forustu í þessu grundvallarmáli í íslensku menntasamfélagi. Ég hafna þessum málflutningi algerlega. Þetta er einfaldlega alrangt. Það er að mínu mati alrangt að Háskóli Íslands eigi að hafa pólitíska forustu um hvernig hann skuli fjármagnaður. Það er stjórnmálamanna, okkar á Alþingis og framkvæmdarvaldsins að hafa pólitíska forustu í því máli.

Ég skora á ráðherra að taka af allan vafa um hvernig hún sjái þessum málum best komið. Auðvitað á að vanda vel til verka og leggja áherslu á að fram fari vönduð og ítarleg umræða um þessi mál. En það er ekki næg ástæða til að velta ábyrgðinni á Háskóla Íslands og bíða þess að háskólafundur verði haldinn í lok maí þegar Alþingi hefur farið í sumarleyfi, Háskóli Íslands lokið störfum og pólitískur þungi farinn úr samfélaginu. Það er óeðlilegt að þess fundar sé beðið. Við á Alþingi eigum að senda skýr skilaboð til Háskóla Íslands um hvernig þessum málum eigi að vera háttað.