Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 11:06:23 (5958)

2004-04-01 11:06:23# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fer að velta fyrir mér, m.a. út af þessari umræðu og umræðum milli mín og hv. þm. um framhaldsskólastigið hér á landi, hvort það sé einfaldlega ekki hlustað á þau svör sem ég veiti úr ræðustólnum.

Ég ítreka að ábyrgðin er okkar stjórnmálamanna. En ábyrgðin er líka hjá Háskóla Íslands, um leið og hann kallar eftir því að vera sjálfstæður þá felast ekki bara réttindi í því heldur líka ákveðnar skyldur. Ég tek það skýrt fram að háskólinn á að hafa ákveðna stefnu og menntasýn eins og við stjórnmálamenn höfum okkar stefnu varðandi háskólann, framhaldsskólann og fleiri skólastig.

Ég vil enn og aftur benda á að það er auðheyrt á málflutningi hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar að fara þarf mjög vel yfir allt þetta mál og ekki aðeins þau mál sem tengjast skólagjöldum. Við þurfum að skoða kostnaðarhliðina, að meta kostina og gallana við skólagjöldin. Ég ítreka það og vona að það nái til eyrna hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, að það er ekki sjálfgefið að við tökum upp skólagjöld. Það eru ekki bara kostir við það heldur líka gallar. Miklar fjárhagslegar skuldbindingar fylgja því að taka upp skólagjöld. Það er ekkert sjálfgefið og við þurfum að vinna okkar heimavinnu alveg eins og Háskóli Íslands þarf að vinna sína heimavinnu.

Stúdentar við Háskóla Íslands hafa verið mjög ábyrgir og m.a. bent á ýmsar leiðir sem Háskóli Íslands og sú stjórnsýsla sem þar á sér stað getur farið í til að hagræða innan háskólans sem gætu haft í för með sér umtalsverðan fjárhagslegan sparnað. Það eru til ýmsar leiðir til að hagræða.