Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 11:08:28 (5959)

2004-04-01 11:08:28# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég tók eftir því að í svari hæstv. menntmrh. við spurningum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, um skipan dómnefndanna, kom það eitt fram að menntmrh. teldi að fulltrúi menntmrh. í þessum dómnefndum ógnaði ekki sjálfstæði háskólans. Eftir sem áður yrðu tveir af þremur í dómnefndum tilnefndir af aðilum innan háskólans, frá deildinni og af háskólaráði.

Hæstv. menntmrh. þarf að skapa sér annan stíl í svörum sínum við fyrirspurnum af þessu tagi. Ráðherrann þarf að gera sér grein fyrir því, fyrr en síðar, að þegar hún flytur frv. á þinginu er ekki um það að ræða að þingmenn eigi að leggja í það eigin skilning heldur á ráðherra að skýra af hverju hún leggur til þær breytingar. Þær eru ekki sjálfsagðar. Hún á að skýra fyrir þinginu og þar með þjóðinni hvers vegna, hver rök eru fyrir því, af hvaða ástæðum hún leggur fram þær breytingar. Hún á að skýra hvers vegna hún vill sjálf skipa einn mann í þessar þriggja manna dómnefndir sem eiga að sitja í mörg ár hver og ráða töluvert miklu, nánast öllu um skipan manna í stöður í háskólanum. Hún þarf að leggja fram þau rök sem hún hefur fyrir því að menntmrh. eigi að ráða einum þriðja í þeirri stofnun, að þessar dómnefndir eigi sem sé að vera pólitískar að einum þriðja.

Þetta mál á sér sögu. Sú saga er náttúrlega, eins og Íslandssaga 20. aldar, nokkuð broguð, mótast af flokksræði sem hér viðgekkst í samfélagi okkar og gerir að sumu leyti enn. Slík sjónarmið réðu að miklu leyti um miðja síðustu öld en á síðustu áratugum höfum við borið gæfu til að verða sammála um að reyna að slá á þau áhrif og lyfta faglegum sjónarmiðum, ná sátt um hluti sem áður voru ákvarðaðir af úthlutunarnefndum stjórnarflokka og stundum í samtryggingu allra flokkanna í trausti þess að stjórnarandstöðuflokkar yrðu stjórnarflokkar.

Á 9. áratugnum urðu verulegar deilur, sem ráðherra ætti að rifja upp, um þau áhrif sem ráðherrar höfðu þá á skipan manna í stöður í Háskóla Íslands, deilur um gerðir ráðherra sem fóru fram hjá áliti háskólans, óskum háskólans og fram hjá þeim dómnefndum sem þar höfðu verið búnar til og starfað með ærinni vinnu og ærnum kostnaði. Í kjölfar þessara deilna var komið á nýrri skipan við Háskóla Íslands. Um það er ekkert fjallað í athugasemdum við frv. Það er eins og menntmrn. hafi misst úr sér söguna við það að semja þetta frv. fyrir ráðherrann. Það er rétt að upplýsa þingheim um hvernig þetta var.

Á þeim tíma tókst um það pólitísk sátt, forseti, að losa samfélagið við pólitísk afskipti af stöðuveitingum í háskólanum. Gengið var út frá því að háskólinn sjálfur fengi fullt forræði í þessum efnum, hann einn réði því hverjir yrðu skipaðir í stöður á hans vegum, að því ,,universitas`` sem stendur vestur á Melum yrði gert að stjórna sjálfu sér í þessu efni og ekki yrði leitað aðstoðar menntmrh. hverju sinni til að ákveða hverjir væru pólitískt hæfir, hverjir væru pólitískt vinsælir til að stunda fræði og kenna í Háskóla Íslands. Fræðaheimurinn hefur þá sögu að framþróun og gerjun í fræðunum, árangur á því sviði, fer ákaflega illa saman við pólitísk afskipti.

Hér mætti hefja nokkuð langa sögu sem mundi t.d. geta stiklað á Galíleó og kirkjunni í Róm, afskiptum fursta og páfa, (ÖS: Gleymdu ekki Kepler.) Kepler og Bruno, sem brenndur var á Blómatorginu í Róm. Ég vona að hæstv. menntmrh. ætli ekki að feta í þau spor en þó er hún með vissum hætti að taka þá hefð upp aftur. Það sem er að gerast nú með þessu frv. og er ekki skýrt í athugasemdum við frv. er að menntmrh. er að fara aftur í söguna, aftur á hinar íslensku miðaldir í þessum efnum, aftur til þess tíma er pólitíkusar skiptu sér með beinum hætti af skipan fræðimanna og kennara í Háskóla Íslands.

Menntmrh. ætlar sér að taka þriðjung af dómnefndinni til sín og hafa þar bein ítök, bein áhrif. Hún ætlar að hafa þau völd og fulltrúi hennar hefur auðvitað meira vægi en hinir tveir fulltrúarnir vegna þess að hann er fulltrúi valdsins, fulltrúi peninganna og hinna stjórnmálalegu ákvarðana sem skipta máli í Háskóla Íslands eins og annars staðar og menn hafa í sambúð stjórnmálamanna og háskólamanna verið nokkuð hallir undir.

[11:15]

Það sem hér þarf að gerast er að menntmrh. svari við 1. umr. af hverju hún leggur þetta til. Eru það óskir Háskóla Íslands, eru það óskir frá háskólaráði, frá háskólarektor, frá Félagi háskólakennara, frá stúdentaráði eða einhverjum öðrum aðilum innan Háskóla Íslands, að menntmrh. komi þeim til hjálpar, komi til sérstakrar aðstoðar við að skipa þriggja manna dómnefndir? Hafa komið fram ábendingar um að háskólinn treysti sér ekki til að skipa nema tvo af mönnum í þessa dómnefnd og þurfi á sérstakri aðstoð hæstv. menntmrh. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur að halda til að skipa þriðja manninn á hinum merku fræðasviðum í Háskóla Íslands? Er það svo?

Það væri fróðlegt að heyra. Engin rök hafa enn þá borist frá hæstv. menntmrh. um þetta mál. Hún tyggur það hins vegar fram og aftur að Háskóli Íslands eigi að vera sjálfstæð stofnun, einkum þegar kemur að því að bera ábyrgð á erfiðum málum eins og skólagjaldamálum, sem ráðherrar Sjálfstfl. hafa þrýst háskólanum til að reyna að taka ákvörðun um vegna þess að skort hefur pólitíska forustu og ábyrgð sem menntamálaráðherrar eiga að sýna í þessu efni.

Það er gott að hæstv. menntmrh. hjálpi mönnum með tölvurnar sínar en þar með er ekki sagt að nærveru ráðherra sé beinlínis óskað í öllum fræðaheiminum heldur þeirrar pólitísku forustu sem menntamálaráðherra og ríkisstjórn á hverjum tíma á að sýna í mótun rammans í kringum menntakerfið. Það varðar m.a. skólagjöld. Það á ekki að líðast að menntmrh. kasti þeirri ákvörðun með fjársvelti til háskólans, þ.e. hæstvirtir undanfarnir menntamálaráðherrar, með því að búa háskólasamfélaginu þann ramma að standa í samkeppni sem það getur ekki annað en tapað í sumum deildum af þessum sökum.

Forseti. Ég er reiðubúinn að gera hlé á ræðu minni meðan þær tilfæringar hér í salnum fara fram sem menn eru uppteknari við en mál þingmanna úr ræðustól. (Gripið fram í.) Ég virði það.

Maður verður auðvitað að gera kröfu til þess að ráðherrar, þegar þeir koma með frumvörp, meini það sem í þeim stendur þó að þeir taki auðvitað fullt mark á vilja þingsins, þótt þeir geti ekki annað en lagt frv. sín fyrir þingheim og tekið því sem þingheimur ákveður. En orðalag eins og það að ráðherrann geri ekki kröfu til að eitthvað fari í gegn er afar sérkennilegt. Hann á enga kröfu á að neitt fari í gegnum þingið. Hann leggur frumvörp sín fyrir þingið til skoðunar, til athugunar. Það er þingið sem hefur forræðið að svo komnu máli og ráðherra á að skýra hvers vegna hann leggur til að þessu verði breytt, hvers vegna fulltrúi framkvæmdarvaldsins, sem er ráðherra í þessu tilviki, menntamálaráðherra, leggur til við löggjafarvaldið að þessu verði breytt. Málið um þennan þriðjung, einn af þremur sem á að ráða pólitíkusinn, framlengingu af valdi menntmrn. sem á héðan í frá, að vilja ráðherrans, að ráða stöðum og skipunum í Háskóla Íslands, verður hæstv. menntmrh. ósköp einfaldlega að skýra.

Verið getur, forseti, að fyrir þeirri grein eða þeim setningum í frv. --- þær eru hvorki skýrðar í athugasemdum við lagafrv. þetta né í athugasemdum við einstakar greinar frv. og hefði ekki verið úr vegi og ekki mikið verk fyrir hæstv. menntmrh. og starfsmenn hans að láta skýringar fylgja --- séu til rök til þess að einn maður í slíkri dómnefnd sé sem óháðastur háskólanum sjálfum. Satt að segja getur verið að sú breyting sem varð eftir að menn reyndu að yfirgefa með öllu sögu afskipta hins pólitíska valds af skipunum í háskólanum hafi ekki með öllu tekist nógu vel. Ýmis dæmi í sögu háskólans á þeim tíma sem síðan er liðinn virðist sýna að full þörf sé, eins og aðrir hv. þm. hafa sagt á undan, á að gera þetta kerfi liðugra og hugsanlega forða því með einhverjum hætti frá ákveðnu ástandi sem stundum skapast í stofnunum, þá á ég við í félagsfræðilegum skilningi, stofnunum eins og í Háskóla Íslands, þar sem völd einstakra manna geta orðið fullmikil og bandalög skapast sem fara þvert á hina rökréttu, eðlilegu og fræðalegu framþróun í málinu. Við í menntmn. ættum kannski að athuga hvort ráð væri að fleygja út fulltrúa menntmrh. og setja inn annan fulltrúa sem gæti komið að málinu með öðrum hætti.

Ég hygg að ég fari rétt með að í umfjöllun um doktorspróf frá háskólanum sé það iðulega þannig --- ég veit ekki hvort það er samkvæmt lögum eða sérstökum reglum háskólans --- að einn af þeim sem dæmir um hæfi doktorsefna er mjög gjarnan fenginn utan háskólans, annaðhvort maður sem er sjálfstætt að störfum eða sem algengt er að fenginn er maður úr öðrum háskólum, gjarnan erlendum háskólum, oft erlendur maður, og hefur gefist vel. Það má vel vera að slík skipan væri eðlileg fyrir háskólann, eðlileg leiðrétting sem bætti úr göllum þess kerfis sem tók við af hinum pólitísku miðöldum sem menntmrh. virðist einungis hafa hugmyndaflug til að snúa aftur til af einhverjum ástæðum.

Þetta kann að vera frum- eða grunnástæða fyrir því hvernig málum er hagað í frv. En það verð ég að lesa sjálfur úr skýjunum eða lifur fórnardýra. Ekki kemur það fram, hvorki í athugasemdum við frv. né í þeim tveimur ræðum sem hæstv. menntmrh. hefur hingað til haldið um málið.