Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 11:25:54 (5964)

2004-04-01 11:25:54# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[11:25]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Ég met það að verðleikum þegar forsetar leiðrétta þingmenn, mig og aðra, í ræðustól fyrir að sveigja frá þingsköpum. Raunar tel ég að forsetar eigi að gera það oftar en þeir gera. Hér viðgengst það jafnvel af reyndustu þingmönnum að þeir ávarpi menn úti í sal og rugli saman því orðfæri sem viðhafa á samkvæmt hefð og þingsköpum í salnum.

Ég vil hins vegar biðja forseta að skoða aftur ræðu mína þegar hún kemur á þvílíkt form að það sé hægt. Ég tel að ég hafi ævinlega ávarpað menntmrh. með þinglegum hætti.

Það er hins vegar þannig að þegar maður hefur bætt viðeigandi lýsingarorði við titil menntmrh. og hvaða ráðherra sem er --- hæstvirts gæti ég sagt hér en ég á nú við þá alla, ráðherrana sem slíka --- þá þarf maður ekki að tyggja það upp í sömu setningu nánast. Ég tel að nægilegt sé að gera það í hverri efnisgrein eða hverjum kafla ræðunnar og þurfi síðan ekki að endurtaka hvað mönnum finnst um þann ráðherra sem hverju sinni er rætt við eða um þá þingmenn sem maður vitnar til.

Ég tel að ég hafi algjörlega gætt þinglegrar kurteisi í þessu og tekið fram að mér þætti menntamálaráðherrann sem hér talaði hæstvirtur og þeir þingmenn sem ég ræddi um einnig vera háttvirtir, þó að ég hafi ekki gert það í hvert einasta skipti sem ég þurfti að minnast á þá.