Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 11:32:28 (5969)

2004-04-01 11:32:28# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[11:32]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég hygg að hér takist í raun á tvær hugmyndir um háskóla. Annars vegar sú hugmynd að háskólar eigi að vera praktískt verkfæri ríkisvalds og atvinnulífs hverju sinni til að búa til þá fræðslu, fræðimenn og iðnaðarmenn í sínum greinum sem talið er samkvæmt áætlunum að á þurfi að halda og hins vegar hin hugmyndin, um háskólann sem samfélag, sem universitas, sem ættuð er frá miðöldum og jafnvel aftur í fornöld í heimspekiskóla Sókratesar í Aþenu og jafnvel lengra aftur. Síðari hugmyndin gerir ráð fyrir að í kjarna sínum hafi skólinn þörf á fullkomnustu sjálfstæði um hver hans fræðilega rannsókn á að vera, að hverju hún á að beinast og frelsi til að ræða það sem út úr henni kemur, hvort sem það er valdhöfum, atvinnulífinu eða aðstandendum til meina eða fagnaðar.

Einhverri málamiðlun þarf kannski að ná á milli þess arna. Það sem menn hafa rætt núna er einmitt að Háskóli Íslands eigi að fá að vera þetta universitas sem hann hefur alltaf stefnt að að vera og borið sig saman --- stundum á nokkuð skringilegan hátt, kannski sérstaklega fyrstu áratugina en nú á síðari árum með fullum rétti --- við aðra þá háskóla í Evrópu og á meginlöndunum í kringum okkur sem hafa náð mestri fullkomnun á þessu sviði. Menn hafa talið að það væru frekar hinir skólarnir á háskólastigi sem eigi að gegna því hlutverki sem fyrr var nefnt.