Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 11:34:36 (5970)

2004-04-01 11:34:36# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[11:34]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það má segja að þrjú grundvallaratriði liggi undir í umræðunni. Í fyrsta lagi álitamál um fyrirkomulag dómnefndanna. Í öðru lagi, atriði sem ég vildi koma upp til að ræða sem hefur orðið útundan í umræðunni að mestu leyti, þ.e. hvort heimila eigi háskólanum að víkja frá þeirri meginreglu að auglýsa eigi öll störf. Í þriðja lagi hefur hæstv. menntmrh. fært inn í umræðuna enn eitt áhorfsmálið sem eru skólagjöld.

Ég verð að segja að mér finnst sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir og hæstv. menntmrh. missi sjónar af þeirri staðreynd að eins og hér er lagt til að skipa dómnefndir er verið að breyta grundvallaratriði. Áður fyrr var það þannig, eins og ég gat um í upphafsræðu minni, að menntmrn. hafði að sönnu fulltrúa í dómnefndum. Þær voru hins vegar skipaðar af sérhverju tilefni. Nú er hins vegar verið að rígnegla tökin, þ.e. áhrif og íhlutunarrétt menntmrh. inn í ráðningar, með því að hafa einn og sama fulltrúann í öllum þessum nefndum sem tengjast meginfræðasviðunum. Af sjálfu leiðir að hæstv. ráðherra mun jafnan skipa til þriggja ára manneskju sem er honum eða henni handgengin. Þetta fyrirkomulag, eins og hér er lagt upp með, skapar hæstv. ráðherra miklu ríkari rétt og möguleika til að hafa áhrif á skipan prófessora og annarra sem koma að því að byggja upp háskóla. Þetta er grundvallarbreyting. Ég tel að í reynd sé ráðherra með þessu veittur ríkari réttur en áður, með því að setja upp varanlegar nefndir.

Ástæða þess að ég tók þetta upp, með ýmsum öðrum atriðum í ræðu minni fyrr í morgun, er sú staðreynd að innan háskólans og innan framkvæmdarvaldsins eru menn stöðugt að tala um nauðsyn þess að efla sjálfstæði háskólans. Menn gera það m.a. út frá samkeppnissjónarmiðum. Góðu heilli eru að koma upp nýir og öflugir háskólar sem skapa jákvæða samkeppni á háskólastigi. Ég tel að það eigi að ýta undir þá samkeppni.

Til að gera Háskóla Íslands, sem gamalgrónum og öflugum skóla, kleift að standast hinum nýju samkeppnisaðilum snúning þá tel ég að efla þurfi sjálfstæði hans eins og kostur er. En ég er ekki einn um þá skoðun. Þessa skoðun hafa hv. þm. Dagný Jónsdóttir og hæstv. menntmrh. líka lagt fram ítrekað. Um þetta sjónarmið má heita að sé samstaða. Ef við á annað borð segjum að við ætlum að efla sjálfstæði háskólans þurfum við líka að taka raunhæf skref til þess. Hér var tækifæri til þess. Hér var tækifæri til að standa ekki í gamla ístaðinu heldur að sveifla sér af stað og spretta úr spori inn í nýja framtíð. Ég tel að ef menn ætluðu að breyta þessu á annað borð væri hugsanlegt að efla sjálfstæði háskólans með því að skera á tengslin við menntmrn. að því er varðar ráðningar.

Nú verður auðvitað að gæta hófs í málflutningi. Það verður líka að horfa á hina hliðina. Það eru töluvert mörg dæmi, að vísu ekki mörg frá umliðnum árum, þar sem háskólinn, sem hafði vald til þess að ákvarða með hvaða hætti tilteknar stöður ættu að vera, auglýsti þær þannig að eflaust vantaði ekki nema skónúmerið á viðkomandi kandídat sem var þá fyrir fram ákveðinn. Það er ákveðin hætta í þessu.

Ég minnist þessa þegar hér spunnust miklar umræður um ráðningu dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í embætti hið fyrsta sinn í Háskóla Íslands. Þá tók ég upp hanskann fyrir þann mann þótt sannarlega væri hann ekki í pólitískum vinahópi mínum. Ástæðan var sú að mér fannst sá háskólakennari, sá umsækjandi, rangindum beittur. Þá lá alveg ljóst fyrir að viðkomandi deild háskólans var að auglýsa eftir tilteknum manni sem var þá þegar staddur innan deildarinnar. Það var bara verið að festa hann. Þarna var um að ræða það sem er alltaf hættan, ákveðna vinavæðingu í grónum stofnunum. Það þarf að koma í veg fyrir að hún geti grafið um sig og skaðað. Það hefur gerst og hefur ekki verið háskólanum til sóma. Það hefur ekki aukið veg hans. Eins og hæstv. menntmrh. sagði hefur ríkt tiltölulega mikill friður um þessar stöðuveitingar.

Þarna eru tvö sjónarmið sem vegast á og ég orðaði það svo í ræðu minni að þetta væri eitt af því sem þyrfti að koma til álita og skoða. Ég hef heldur herst við þessa umræðu í þeirri afstöðu minni að skera eigi á þann naflastreng sem bindur háskólann við móðurkviðinn í menntmrn.

Sé það hins vegar svo, eins og hæstv. menntmrh. hefur sagt, að þetta ákvæði hafi komið inn samkvæmt tilmælum háskólans er umhendis að ætla sér síðan, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði í ræðu sinni um þetta tiltekna atriði, að óska eftir áliti háskólans. Þá getum við gefið okkur svarið fyrir fram. En háskólinn er þjóðskóli. Hann varðar ekki bara þá sem starfa innan hans sem kennarar eða sem nemendur. Hann varðar okkur öll. Hann varðar hag samfélagsins og þess vegna hafa allir leyfi til að hafa skoðanir á þessu. Þess vegna tel ég að þessi umræða sé heppileg og farsæl.

Ef háskólinn á að vera sjálfstæðari þá eigum við að taka raunhæf skref í átt að auknu sjálfstæði hans. Þetta er eitt af þeim. Almennt er ég þeirrar skoðunar að því meira vald sem háskólinn hefur í sínum málefnum og innri málum þeim mun hæfari sé hann til að standast snúning þeim nýju og þróttmiklu háskólastofnunum sem eru að koma upp. Við sjáum nú þegar að það er að skapast jákvæð samkeppni á háskólastigi. Við sjáum það í auknum valkostum, nýjum greinum, öðruvísi háskólagráðum sem hæfa betur einstaklingum og atvinnulífi. Þetta er allt af hinu góða. En við megum samt sem áður aldrei gleyma því að háskólinn okkar gamli, þjóðskólinn, verður að hafa nægilegt andrými til þess að geta sótt sér örendi til að standast samkeppnina. Ég ímynda mér þess vegna að þetta verði eitt af því sem menn skoði vel.

Ég kem þá aðeins að Norrænu eldfjallastöðinni. Ég vil að það komi skýrt fram að ég tel að þetta sé heppileg ráðstöfun eins og ég sagði í minni fyrstu ræðu. Ég tel almennt heppilegt að fækka stofnunum og sameina þær. Mér er málið kannski of skylt til að ég vilji fara út í miklar umræður um það en ég tel það hárrétt sem fram kemur í greinargerðinni, að þetta mun stórefla Raunvísindastofnun sem er einhver öflugasta rannsóknastofnun sem við höfum. Hún er kannski hin eina frjálsa akademía sem við höfum í dag innan hins opinbera kerfis. Þar starfa rannsóknarmenn sem fá fjárveitingar frá ríkinu og velja sér rannsóknarsvið að eigin ósk og löngun. Við sjáum að óvíða er jafndjúpt og vel plægður svörðurinn á vísindaakrinum og einmitt þar. Þetta er hið besta mál.

Ég spurði hver aðdragandinn hefði verið. Svar hæstv. menntmrh. var að þetta hefði verið gert á grundvelli norrænna samskipta. Það kom mér ekki á óvart. Ég sat í ríkisstjórn árið 1995 þar sem þetta var í fyrsta sinni kallsað af þáverandi menntmrh. Ólafi G. Einarssyni að ósk Norrænu ráðherranefndarinnar. Auðvitað var það þannig að hún tók ákvörðun um að reyna að koma þeim verkum af sínum höndum til ýmissa stofnana, sem kalla mætti stjórnsýslustofnanir sem tengdust Norrænu ráðherranefndinni, opinberra og óopinberra í þeim ríkjum sem að henni eiga aðild. En hví þótti mér rétt að inna hæstv. ráðherra eftir þessu? Í fyrsta viðtali sem ráðherrann lét við sig taka í Fréttablaðinu skömmu eftir áramót nefndi hún til marks um hvað hún væri að gera til þess að efla Háskóla Íslands, að hún hefði tekið ákvörðun um að sameina Norrænu eldfjallastöðina við Háskóla Íslands og Raunvísindastofnun. Hún var með öðrum orðum að slá sjálfa sig til riddara á því að hafa í eigin höfði tekið þessar tilteknu ákvarðanir. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta hefur verið til umræðu lengi, eins og fram kom nú í máli hæstv. ráðherra.

Frú forseti. Ég ætlaði mér að dvelja aðeins við það sem hæstv. ráðherra sagði um skólagjöldin. En tími minn er á þrotum. Ég tek fram að það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir, að það er ekkert óeðlilegt að HÍ hafi sjálfstæða skoðun varðandi skólagjöld. Hins vegar verður að gera þá kröfu að hæstv. menntmrh. hafi slíka skoðun. Hún hefur þá skoðun aldrei í þessum sölum. Hún hefur skoðun á málinu utan þingsins en aldrei hér.