Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 12:00:06 (5973)

2004-04-01 12:00:06# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[12:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir gott að hæstv. menntmrh. tekur hér upp umræðu um skólagjöld. Hæstv. ráðherra orðaði það svo í sínum fyrri ræðum að hún hlyti að hafa talað heldur lágri röddu þegar hún hefur áður rætt skólagjöld ef þingheimur hefur ekki heyrt rök hennar í málinu.

Ég hef saknað þess mjög af hálfu hæstv. menntmrh. að hún taki upp umræðu um skólagjöld. Skólagjaldaumræðan er umræða um algjör grundvallaratriði. Ég hef tekið undir það hjá hæstv. ráðherra að það er ekkert óeðlilegt og raunar sjálfsagt að Háskóli Íslands hafi sjálfstæða skoðun á því máli. Hins vegar er það krafa frá okkur, frá háskólanum, frá þegnum þessa lands að framkvæmdarvaldið hafi einhverja skýra skoðun á því máli. Hæstv. menntmrh. hefur ekki haft skýra skoðun á því máli.

Það er reyndar athyglisvert að þegar hæstv. ráðherra talar um skólagjöld í sölum Alþingis setur hún upp ákveðna fyrirvara gagnvart skólagjöldum. Ítrekað hefur hún talað um að ekki sé sjálfgefið að þau verði tekin upp og það er rétt hjá henni. En þegar hún hefur verið í viðtölum utan sala þingsins er hún miklu meiri skólagjaldasinni en hér innan. (Menntmrh.: Eins og?) Eins og í Fréttablaðinu.

Hæstv. ráðherra hefur hins vegar sagt sem rök fyrir því að ekki sé sjálfgefið að taka upp skólagjöld að það gæti haft umtalsverð fjárútlát fyrir ríkið í gegnum Lánasjóð ísl. námsmanna. Þetta færir mér heim sanninn um það að hæstv. ráðherra hefur a.m.k. hugsað sig í gegnum hluta þessarar umræðu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Verði tekin upp skólagjöld, er þá ekki sjálfgefið að íslenska ríkið láni fyrir þeim? Erum við ekki sammála, ég og hæstv. ráðherra, um að það sé alger lykilforsenda fyrir upptöku skólagjalda hvort heldur það er í grunnnámi eða í framhaldsnámi?