Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 12:03:34 (5975)

2004-04-01 12:03:34# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[12:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það skipti máli að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að forsenda þess að tekin verði upp skólagjöld sé að íslenska ríkið láni fyrir þeim. Það hefur verið mikil umræða um skólagjöld. Ég hef verið heldur í þeim hópi sem hefur verið andstæður skólagjöldum. Hins vegar vil ég líka að það komi alveg skýrt fram að ég tel að það eigi að greina á milli annars vegar grunnnáms við Háskóla Íslands og hins vegar framhaldsnáms. Reyndar er ég þeirrar skoðunar, án þess að það beinlínis komi þessari umræðu við, að það eigi síðan að taka sérstaklega á þeim sem eru að verða sér úti t.d. um rannsóknargráður eins og doktorsgráður við Háskóla Íslands. Ég tel einfaldlega að slíkar rannsóknir skili svo miklum arði fyrir samfélagið og að slíkt nám sé svo dýrt fyrir viðkomandi námsmann ef hann á að standa undir sér sjálfur að það þurfi að taka alveg sérstaklega á því. En það er önnur saga.

Hins vegar er það algert skilyrði að hæstv. ráðherra viti hvað er að gerast í þessum málum, ekki síst í sínu eigin ráðuneyti. Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra að hún telur að það sé óábyrgt af sjálfri sér að taka upp umræðu um skólagjöld áður en búið sé að meta hvað upptaka þeirra mundi kosta íslenska ríkið. Frú forseti. Ég er standandi hissa á þessum umræðum. Það kemur fram í svari við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur hvað þetta kosti. Og hver veitir þetta svar? Það er einmitt konan sem rétt áðan var að lýsa því yfir að fyrst þyrfti að meta kostnaðinn af skólagjöldum fyrir íslenska ríkið áður en menn geta tekið ákvörðun. Þetta liggur fyrir í upplýsingum frá henni sjálfri. Þetta er einfalt, frú forseti, því ef tekin verða upp skólagjöld í ríkisreknum háskólum sem nema 200 þús. kr. á hvern nemanda þá hefur það milljarð í kostnað í för með sér fyrir íslenska ríkið. Ef skólagjöldin eru fimmfölduð þá tífaldast útgjöld íslenska ríkisins.