Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 12:07:27 (5977)

2004-04-01 12:07:27# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[12:07]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. menntmrh. fyrir lýsingu hennar á hinum lýðræðislegu og málefnalegu umræðum í menntmn. Ég vil segja að þó ég hafi verið í þeirri nefnd frá því í október og reyndar frá því í fyrrasumar þá hlakka ég mjög til þess sem nýliði að kynnast vinnubrögðunum í menntmn., lýðræðinu og hinum málefnalegu umræðum, og vona að óskir ráðherrans til mín um að mér muni líka þær vel rætist.

Ég kom ekki eingöngu til að segja þetta þó mér sé það ákaflega ljúft heldur til að biðja hæstv. menntmrh. að skýra aðeins betur þetta bréf sem ráðherrann hefur fengið frá háskólanum um skipan dómnefnda. Ég hef bara ekki tekið nógu vel eftir því, en á ég að skilja þetta svo að háskólaráð sé farið að efast um þessa skipan dómnefnda sem við vorum að gagnrýna hér nokkrir áðan og að menntmrh. sé sem sagt að flytja þetta í trássi við bréfið frá háskólanum vegna þess að nú sé kominn 1. apríl eða tíminn að renna út, þ.e. ráðherrann sé að biðja þingið um lagasetningu sem ráðgjafar hennar í háskólanum vilji hafa einhvern veginn öðruvísi? Ég verð bara að viðurkenna að hef ekki alveg náð þessu í ræðum hæstv. menntmrh.