Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 12:19:15 (5982)

2004-04-01 12:19:15# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[12:19]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er leitt að heyra hve sjálfsmynd hv. þm. er farin að brotna og falla á hana. Ég held að ég verði að porra sjálfstraustið upp í hv. þm. Hann gerir þá kröfu á hæstv. ráðherra að hún lýsi sjónarmiði sínu. Það höfum við ekki fengið fram þannig að ég tel að við eigum bara að taka málið, taka þann kaleik og segja: Nú, gott og vel, það er ekki alltaf sem ráðherrarnir eru með bendiprikið á lofti yfir okkur og segja að þetta vilji þeir að verði gert og svo sjái stjórnarþingmennirnir í viðkomandi nefndum til þess að það verði gert. Ég sé því ekki annað en að við höfum hér eins og ég sagði áðan skapandi tækifæri til þess að fara ofan í gagnrýnivert atriði í frv. Ég held að við eigum að fagna því og ekki að vera nöldra yfir því að ráðherrann í þessu tilfelli skuli ekki vilja láta í ljósi sjónarmið sitt af því er virtist í ræðum hæstv. ráðherra að viðkomandi bréf barst einungis fyrir örfáum dögum. Við skulum bara líta á það sem tækifæri fyrir nefndina til að taka á málinu, fjalla um það faglega og opið og með ráðgjöf frá þeim sem best þekkja til og þakka fyrir að það er ekki meiri forskrift frá hæstv. ráðherra en raun ber vitni í þessu tilfelli.