Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 12:26:28 (5984)

2004-04-01 12:26:28# 130. lþ. 93.5 fundur 816. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (hækkun bóta) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[12:26]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er lagt fram í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna nýlegra kjarasamninga Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins við Samtök atvinnulífsins. Það var ánægjuefni að samningar tókust milli aðila án teljandi vandkvæða og má ætla að þessir kjarasamningar séu raunhæfir. Það voru því ákveðin vonbrigði þegar fréttist í byrjun vikunnar að samningar hefðu verið felldir á tveimur stöðum, þ.e. á Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum.

Ríkisstjórnin kom að þessari samningsgerð með yfirlýsingu undir lok viðræðna aðila þar sem m.a. kom fram að ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að atvinnuleysisbætur sæti hækkunum á næstu þremur árum. Gert var ráð fyrir því að fyrsta hækkunin tæki gildi á sama tíma og kjarasamningarnir eða þann 1. mars sl. og yrðu atvinnuleysistryggingar þá að fjárhæð kr. 88.767. Síðan er gert ráð fyrir að þær hækki um 3% 1. janúar 2005, 2,5% 1. janúar 2006 og 2,25% 1. janúar 2007.

Hækkunin sem lögð er til með frv. nemur því um 11,3% þar sem atvinnuleysistryggingar hækka úr rúmum 79 þús. kr. á mánuði í tæp 89 þús. Fyrr á árinu hækkuðu atvinnuleysistryggingarnar um 3% þannig að samanlögð hækkun atvinnuleysistrygginga á þessu ári nemur um 14,6% sem er mesta hækkun þessara trygginga á einu ári í langan tíma. Kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs er í ár áætlaður um 330 millj. kr. vegna þessara breytinga. Breytingar á fjárhæð hámarksatvinnuleysistrygginga hafa komið til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Venja hefur verið að breyta fjárhæðum laganna með auglýsingu og hefur verið miðað við að breytingarnar hafi tekið gildi um áramót. Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru uppi og vegna þess hve mikil hækkunin er var hins vegar ákveðið að bregða út af vana og leggja fram sérstakt lagafrv. til breytinga á fjárhæð 7. gr. laganna í því skyni að færa hana til samræmis við þá fjárhæð sem í gildi verður.

Hæstv. forseti. Eins og ég hef áður getið hef ég ákveðið að beita mér fyrir endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar og laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Þótti mér alveg tímabært að þetta kerfi yrði tekið til endurskoðunar enda komin töluverð reynsla á það kerfi sem tekið var í notkun fyrir tæpum sex árum. Markmiðið með endurskoðuninni nú er fyrst og fremst að bæta stöðu og öryggi fólks sem er án atvinnu sem og að tryggja gæði vinnumarkaðsaðgerða og auka skilvirkni kerfisins almennt. Þá er ætlunin að meta árangur vinnumarkaðsaðgerða síðustu ára og hverju þær hafa skilað fólkinu sem nýtt hefur sér þjónustuna. Ég hef þegar leitað tilnefninga hjá fjmrn., Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja í nefnd sem fyrirhugað er að skipa þar sem í munu eiga sæti sex fulltrúar. Mun ég skipa tvo fulltrúa án tilnefningar og verður annar þeirra formaður nefndarinnar. Standa vonir til að nefnd þessi skili tillögum sínum næsta haust þannig að unnt verði að undirbúa frv. til nýrra laga um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir strax á næsta vetri.

Þá er vert að minnast þess að samhliða kjarasamningsgerðinni í mars sl. var gert samkomulag um eflingu starfsmenntasjóða atvinnulífsins um samtals 400 millj. kr. á samningstímanum. Þetta er, eins og ég hef áður sagt, gífurlega mikilvægt mál sem hefur það að markmiði að gera starfsmönnum kleift að laga sig að breyttum aðstæðum í atvinnulífinu hvort sem það er á vinnustaðnum eða að takast á við ný og ögrandi verkefni.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.