Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 13:00:59 (5993)

2004-04-01 13:00:59# 130. lþ. 93.5 fundur 816. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (hækkun bóta) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[13:00]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo sannarlega ekki réttur samanburður að bera saman atvinnuástandið og ástandið í þjóðarbúinu á árunum 1991, 1992 og 1993 þegar mikil niðursveifla var, við þá uppsveiflu sem núverandi ríkisstjórn hefur búið við vegna hagstæðra ytri skilyrða o.s.frv.

Það sem við gerðum þó á þeirri tíð var að kaupmáttur lífeyris og kaupmáttur atvinnuleysisbóta hélst alltaf í hendur við kaupmátt launa á þeim tíma og hækkanirnar voru alltaf sambærilegar.

Hér sjáum við aftur á móti að í mikilli uppsveiflu, þar sem ríkisstjórnin hefur nálægt 100 milljörðum meira til ráðstöfunar en var á þeim tíma, hefur kaupmáttur þeirra verst settu, atvinnulausra, einungis hækkað um 1--2% á sama tíma og kaupmáttur meðallauna hefur hækkað um 6% og lágmarkslauna um 10%. Þannig að hvernig sem á málið er litið hefur kaupmáttur þeirra sem verst eru staddir aukist miklu minna en annarra í þjóðfélaginu í góðærinu. Það er staðreynd málsins.

Hv. þm. vill lítið tala um jólauppbótina, 27 þús. kr., sem þó var greidd þegar við vorum í niðursveiflu en núverandi ríkisstjórn afnam. Hann vill lítið tala um það að viðmiði atvinnuleysisbóta við laun var kippt úr sambandi með þeim afleiðingum að atvinnuleysisbætur eru núna 15 þús. kr. lægri á mánuði, eða 180 þús. kr. ári, en þær ættu að vera. Þegar við vorum í ríkisstjórn á þessum tíma pössuðum við þó alltaf upp á að lífeyrisgreiðslur og greiðslur atvinnulausra væru á sama róli og annarra í þjóðfélaginu.