Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 13:03:06 (5994)

2004-04-01 13:03:06# 130. lþ. 93.5 fundur 816. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (hækkun bóta) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[13:03]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir þátttöku hennar í umræðunni.

Hv. þm. beindi til mín nokkrum spurningum sem ég ætla að reyna að svara. Í fyrsta lagi spyr hv. þm. hvort það kunni að vera séríslenskt fyrirbrigði að fólk yfir tilteknum aldursmörkum fái ekki vinnu. Því miður held ég, hv. þm., að það sé ekki séríslenskt fyrirbrigði. Ég get tekið undir með hv. þm. þegar hún lýsir áhyggjum sínum af þeirri þróun. Það er vissulega mjög slæm þróun sem á sér stað þegar fólk yfir tilteknum aldri, jafnvel niður undir fimmtugt, stendur frammi fyrir því, hæfileikaríkt fólk með mikla reynslu og ágæta menntun, að það fær hvergi vinnu að því er virðist eingöngu aldursins vegna. Og það er mál sem við erum sérstaklega að skoða í félmrn., m.a. með þátttöku hv. þm. eins og hún benti á.

Ég hef sömuleiðis, og hef lýst því yfir úr þessum ræðustól, áhyggjur af auknu atvinnuleysi og ekki síst auknu langtímaatvinnuleysi og auknu atvinnuleysi ungs fólks. Það var þó sem betur fer heldur minna atvinnuleysi í febrúar sl. en í febrúarmánuði fyrir ári, aðeins virðist þetta því þokast í rétta átt, en það er langt frá því að það dugi til, hv. þm.

Við erum með ýmsar aðgerðir til þess að ráðast gegn þessum vanda. Ég lýsti því áðan að nefnd sem mun sérstaklega fjalla um atvinnuleysistryggingalöggjöfina og vinnumarkaðsaðgerðirnar er að taka til starfa. Það sem fram kom í máli hv. þm. og varðar atvinnuleysisbæturnar, upphæðirnar, jólauppbótina o.fl. sem hv. þm. nefndi, finnst mér vera atriði sem sú nefnd ætti að taka til skoðunar. Við erum sömuleiðis að fjalla um langtímaatvinnuleysi og sérstakar aðgerðir í þeim efnum, við nefndum eldri starfsmennina og nú erum við að hækka bæturnar, þannig að ekki er hægt að halda því fram, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin sé ekki að hugsa um hagsmuni þeirra sem eru, því miður, án atvinnu.