Lífsýnatökur úr starfsfólki

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 13:46:23 (6000)

2004-04-01 13:46:23# 130. lþ. 93.95 fundur 454#B lífsýnatökur úr starfsfólki# (umræður utan dagskrár), GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að stundum á ég nokkuð erfitt með að átta mig á því hvers vegna og hvaða ástæður eru fyrir því að menn fara út í viðkomandi utandagskrárumræður. Ég tók um daginn þátt í umræðu um hafrannsóknir og átti mjög erfitt með að átta mig á því af hverju viðkomandi hóf máls á þeim og þrátt fyrir að ég fylgdist með umræðunni var erfitt að átta sig á því.

Ef ég skil málshefjanda núna rétt, eins og hann sagði í framsögu sinni, finnst málshefjanda siðferðislega óverjandi að það sé verið að prófa fyrir ólöglegum efnum hjá starfsmönnum í viðkomandi fyrirtæki, siðferðislega óverjandi.

Ég vil velta því upp, virðulegi forseti, hvernig umræðan væri í sölum þingsins ef slys hefði orðið sökum þess að einhver starfsmaður hefði neytt ólöglegra efna og valdið slysi. Hvernig hefði umræðan verið þá, virðulegi forseti?

Nú liggur það fyrir á umræddum vinnustað að þar eru menn með heita málma og það eru margir aðrir vinnustaðir þar sem eru gríðarlegir öryggishagsmunir í gangi. Það liggur alveg fyrir þó að ekki hafi verið umræða hér um það að hér á landi hefur mönnum um áratuga skeið umsvifalaust verið vikið heim ef þeir hafa verið undir áhrifum áfengis sem er einn þáttur vímuefnaneyslu. Jafnvel hefur mönnum verið sagt upp störfum.

Mér finnst sjálfsagt að ræða flesta hluti og taka þá upp en ég vil, virðulegi forseti, að þingheimur hugleiði að við þurfum að huga að öryggi fólksins, bæði starfsmanna og almennings. Það er vá fyrir dyrum, ólögleg vímuefni, og ég er alveg hreint sannfærður eftir að hafa starfað í þinginu að ef sú staða kæmi upp að slys yrði af þeim völdum væru menn hér í löngum röðum að koma upp og kalla eftir ábyrgð vinnuveitenda.