Lífsýnatökur úr starfsfólki

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 13:53:05 (6003)

2004-04-01 13:53:05# 130. lþ. 93.95 fundur 454#B lífsýnatökur úr starfsfólki# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Hjálmar Árnason:

Virðulegur forseti. Til eru einfaldar aðferðir til þess að komast að því hvort einstaklingur hafi verið að dópa sig eða ekki. Það eru aðferðir til að taka sýni af svita eða munnvatni. Það eru einfaldar aðferðir. Fyrir foreldra er gott að vita af slíkum einföldum aðferðum ef þeir hafa minnsta grun um að barn þeirra sé að ánetjast fíkniefnum og þá er mjög gott fyrir foreldra að geta gripið inn í og bjargað börnum sínum frá því að ánetjast fíkniefnum. Það eru mannréttindi að bjarga börnum frá slíku.

Með sama hætti má segja um vinnustaði að það séu mannréttindi að grípa inn í og bjarga fólki frá því að ánetjast fíkniefnum. Það eru líka mannréttindi að hafa vinnustaði örugga og það eru mannréttindi að hafa vinnustaði án fíkniefna. Ég fagna þess vegna því átaki fyrirtækja ef þau með slíkum aðferðum, með upplýstu samþykki starfsfólks og viðurkenndu eftirliti, vilja ganga til liðs við allan þann fjölda sem vill berjast gegn fíkniefnum í landinu. Ég trúi því ekki að fólk leggist gegn þessu. Svo mikið er víst að fíkniefnasalar munu fagna því ef slíkar aðferðir eru gerðar tortryggilegar.

Við skulum minnast þess að það er ekki auðvelt að ná trausti þeirra sem eru komnir í fíkniefnin. Það er engin auðveld leið að ná trausti þeirra um neyslu sína. Við skulum minnast þess að þeir sem ekki eru í dópi óttast ekkert og hafa ekkert að óttast. Þeir munu þvert á móti fagna. Það eru dópistar og ekki síst fíkniefnasalar sem verða hræddir við hertar aðgerðir. Það eru mannréttindi að losa umhverfið undan fíkniefnum og ég hvet hæstv. ráðherra til að styrkja slíkt ferli með upplýstu samþykki og viðurkenndu eftirliti.