Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 14:22:08 (6011)

2004-04-01 14:22:08# 130. lþ. 93.5 fundur 816. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (hækkun bóta) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er fjallað um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar en frv. felur það í sér að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar. Er það í samræmi við niðurstöður kjarasamninga nú ekki alls fyrir löngu en í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var af því tilefni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að atvinnuleysisbætur hækki og verði frá 1. mars 2004 88.767 kr., en hækki síðan um 3% 1. janúar 2005, 2,5% 1. janúar 2006 og um 2,25% 1. janúar 2007.``

Hér er um að ræða 11,3% hækkun á hámarksbótum atvinnuleysistrygginga. Í umræðu sem hér fór fram fyrir nokkrum dögum utan dagskrár höfðu ýmsir þingmenn úr stjórnarandstöðunni á orði að atvinnuleysistryggingabætur væru lágar. Ég minnist þess að hæstv. félmrh. byrsti sig þá og spurði hvort menn væru ekki nokkuð vanþakklátir þegar ríkisstjórnin sýndi lit í þessu máli. Auðvitað hljótum við að fagna því að verkalýðshreyfingin hafi knúið ríkisstjórnina til undanhalds á þessu sviði en eins og menn eflaust muna er ekki langt síðan að uppi voru áform af hálfu ríkisstjórnarinnar, ekki um að hækka atvinnuleysisbætur, heldur um að skerða þær, skerða atvinnuleysisbætur í upphafi atvinnuleysistímans um 10.000 kr.

Í kjölfar þeirrar umræðu bárust okkur þingmönnum, a.m.k. þeim sem tóku þátt í umræðunni, bréf frá atvinnulausum manni. Hann sagði að í rauninni skipti hann litlu máli hvort atvinnuleysisbæturnar væru 70, 80 eða 90 þús. kr., staða hans væri slík. Þetta er tæknifræðingur sem hafði verið atvinnulaus um nokkurt skeið. Hann sagðist lifa á uppsöfnuðu sparifé nú um stundir, hann þyrfti að sjá fyrir fimm manna fjölskyldu og hann væri jafndauður hvort sem upphæðin væri 70, 80 eða 90 þús. kr. Hann sagði: ,,Það sem ykkur ber að hyggja að eru leiðir til þess að ráða bót á atvinnuleysisvandanum.`` Ég ætla að koma aðeins að því hér á eftir áður en ég segi skilið við kjörin sem atvinnulausu fólki eru búin.

Fyrir tekjulítinn einstakling skiptir hver króna að sjálfsögðu máli. Þótt sá maður sem ég var að vitna í setti málin í annað og stærra samhengi í sínu lífi er það vissulega svo að hver króna skiptir máli. Líka desemberuppbótin sem ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hafði af atvinnulausum árið 1997. Árið 1996 nam þessi desemberuppbót sem hafði verið við lýði allar götur frá árinu 1990 þegar vinstri stjórn fór síðast með völd í landinu --- þá var sett sérstök desemberuppbót fyrir atvinnulaust fólk --- 27.685 kr. Hún var numin brott. Og ef krónurnar skipta hinn atvinnulausa máli og hver króna telur er óskiljanlegt að ríkisstjórnin sem þá sat og var að uppistöðu til sú sama og nú er við völd í landinu skyldi afnema þessa greiðslu. Ég fagna því að hæstv. félmrh. lét í það skína í umræðunni fyrr í dag að honum þætti ástæða til að endurskoða þennan þátt og að sú nefnd sem mun taka á málefnum atvinnulausra og er í þann veginn að hefja störf fái það verkefni inn á sitt borð. Það er hið besta mál.

Atvinnuleysi í landinu er mjög mikið núna. Það er um 3,6% ef ég man rétt en samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Vinnumálastofnunar eru núna 5.453 einstaklingar án atvinnu. Ef við bætum fjölskyldum þeirra við eða þeim sem þessum einstaklingum eru háðir erum við að tala um mjög stóran hóp, mjög stóran hluta af íslensku samfélagi. Ég tel að það þurfi að leita allra leiða, ekki aðeins til að finna fólki vinnu eða skapa aðstæður þar sem atvinnutækifærin verða til, heldur þarf núna að rýna mjög í kjaramálin. Ég nefndi desemberuppbótina sérstaklega.

Hér var sú hugsun orðuð fyrr í dag að atvinnuleysisbætur yrðu undanskildar skatti, og reyndar félagsaðstoð einnig, en hæstv. félmrh. taldi slíkt ekki vera hyggilegt. Almennt hef ég verið þeirrar skoðunar að við ættum eftir fremsta megni að hafa almennar reglur í skattamálum sem giltu yfir alla línuna. Mér finnst hins vegar við ekki geta haldið okkur í slík markmið ef það er á kostnað hópa eins og þessara tekjulægstu hópa í samfélaginu, ef við komumst ekki út úr þessu fari vegna þess að við höfum sett okkur einhverja svona hugmyndafræðilega stefnu. Ég held að við eigum að vera reiðubúin að endurskoða þennan hátt, auk þess sem ég tel mjög brýnt að atvinnuleysisbæturnar verði hækkaðar umtalsvert umfram það sem hér er gert ráð fyrir.

Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði að ríkisstjórnin væri að gera átak, hún væri að gera sérstakt átak í atvinnuleysismálum, atvinnumálum öllu heldur, og vísaði til Suðurnesja. Ég minni á Landspítalann -- háskólasjúkrahús, þar er líka slíkt átak í gangi. En það er undir öfugum formerkjum. Þar er verið að segja fólki upp störfum, þar er verið að draga saman seglin.

Ég vil minna á það einnig við þessa umræðu að sú stefna sem ríkisstjórnin fylgir og hefur fylgt í efnahags- og atvinnumálum er ekki til þess fallin að auka atvinnu í landinu. Ég minnist þess að þegar við ræddum Kárahnjúkavirkjun hér á sínum tíma voru uppi orð um það að við framkvæmdirnar á því stigi sem við erum nú á mætti gera ráð fyrir að 80% starfsmanna yrðu íslensk og 20% erlend en eftir því sem ég hef fengið fregnir af er þetta hlutfall öfugt. Það mun vera eitthvað minna, 60--40%, en engan veginn í þá veru sem menn höfðu uppi spádóma um á sínum tíma.

Síðan er hitt og ég ætla að minna á það, án þess að ég ætli að fara út í mikil ræðuhöld um þetta mál á þessu stigi, öll sjónarmið hafa í rauninni komið hér fram, að það er samhengi milli stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi og niðurskurðarins á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Þegar framkvæmdaféð rennur upp í Kárahnjúka standa margir í þeirri trú að hér sé eitthvert gjafafé á ferðinni. Þetta er íslenskt lánsfé, við eigum eftir að borga til baka hverja einustu krónu. En það kom síðast fram á ársfundi Seðlabankans ekki alls fyrir löngu að til þess að þetta mikla fjármagn sem verið væri að spýta inn í efnahagskerfið mundi ekki valda þar ofhitnun og þenslu væri nauðsyn að stíga á bremsurnar og það yrði gert fljótlega með hækkun stýrivaxta Seðlabankans. Önnur ráð sem hafa verið boðuð eru að draga úr umfangi opinberra framkvæmda og opinbers reksturs. Og þar erum við aftur komin inn á ganga Landspítala -- háskólasjúkrahúss.

Hæstv. forseti. Ég hef áður lýst sjónarmiðum mínum til þessa málefnis. Ég tel mjög brýnt að málefni atvinnulauss fólks verði reglulega tekin upp til umræðu í þinginu til þess að halda ríkisstjórninni og reyndar okkur öllum við efnið.