Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:02:15 (6017)

2004-04-01 15:02:15# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki alveg rétt orðað hjá hv. þingmanni að samtökin styðji mig í þessu máli. Ég styð stefnu samtakanna í málinu. Ég er að vísa í stefnu sem samþykkt hefur verið á þingum BSRB, síðast í október sl., og ég er að vísa í samþykktir og stefnu Alþýðusambands Íslands. Ég er að tala um stefnu fjölmennustu samtaka launafólks í landinu og hún er ekki ákveðin af einum manni eða fáu fólki, heldur miklum fjölda fólks. Þannig vinna lýðræðisleg samtök. Ég veit ekki hverju þingmenn Sjálfstfl. eru vanir í þeim efnum.

Um það hvort ég vilji banna vexti, því fer að sjálfsögðu fjarri að ég vilji gera það. Það sem um er að ræða er hvernig við ætlum að skipuleggja til framtíðar rekstur veitnakerfisins, raforkunnar og vatnsins. Ætlum við að setja það út á markað og gera að markaðsvöru þar sem það gengur kaupum og sölum og þar sem fjárfestar reyna að hafa sem mestan arð niður í sína eigin vasa eða ætlum við að skipuleggja þessa starfsemi í þágu samfélagsins og láta það njóta ávaxtanna af því starfi? Því er ég fylgjandi og því hef ég verið að tala fyrir.