Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:07:26 (6020)

2004-04-01 15:07:26# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., Frsm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Frsm. félmn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki vil ég gera lítið úr áhrifum Vinstri grænna en ég leyfi mér að efast um að rödd þeirra hafi nú mótað þetta frv., enda hefur aldrei staðið til --- það hefur komið fram hjá núverandi félmrh. þegar hann mælti fyrir frv., sem og forvera hans, að markmið frv. er ekki að einkavæða vatnsveitur. Nú hengir hv. þm. Ögmundur Jónasson sig nokkuð í það að í frv. eru ákvæði um að vatnsveitur skuli vera í meirihlutaeigu hins opinbera, ríkis eða sveitarfélaga. Hið sama gildir í rauninni um brtt. sem fylgir frá hv. þingmönnum Samf. og væntanlega verður rædd hér síðar í dag.

Þá vilja menn túlka það þannig að það að það skuli ekki vera 100% í eigu hins opinbera sé vottur um einkavæðingu. Þá vil ég benda á að þetta tekur mið af nauðsynlegum sveigjanleika, m.a. vegna þess að það er að gerast um þessar mundir að ýmsir aðilar í orkubransanum eru að renna saman. Ég nefni t.d. bændur sem hafa verið að virkja hjá sér. Ég nefni líka samruna minni orkufyrirtækja við stærri til þess að skapa stærri einingar. Í orkubransanum má líta á t.d. vindmyllur sem menn m.a. á Suðurlandi eru að ræða um að koma upp, vindgörðum sem einkaframtak til að framleiða rafmagn. Hvað ef þessir aðilar vilja síðan sameinast stærri fyrirtækjum? Á þá að útiloka þá eða eiga þeir þá að afsala sér þessum eigum sínum?