Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:09:18 (6021)

2004-04-01 15:09:18# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vonandi rétt að það hafi ekki verið Vinstri hreyfingin -- grænt framboð ein sem hafi viljað standa vörð um vatnsveiturnar og koma í veg fyrir að vatnið, drykkjarvatnið, yrði einkavætt. Það er engu að síður staðreynd að þegar um þessi mál var deilt sl. vor stóðum við þá vakt, þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Málflutningur okkar og málafylgja olli því að málið var tekið út úr þinginu. Þetta er bara staðreynd. Og menn geta alveg látið okkur njóta sannmælis fyrir það.

Hins vegar fagna ég því ef sá málflutningur og sú málafylgja hefur orðið þess valdandi að menn vakni upp við þær hættur sem stafa af því að einkavæða og markaðsvæða grunnréttindi á borð við drykkjarvatnið. Þá er það fagnaðarefni. Ég tel til góðs að þær breytingar sem þó hafa verið gerðar á frv. muni að öllum líkindum ná fram að ganga. Þar er verið að nálgast okkar sjónarmið. Það þykir mér rétt.

Varðandi það sem hv. þm. Hjálmar Árnason nefnir, að bændur reka veitur og það eru ekki einvörðungu sveitarfélög og opinberir aðilar, er það nokkuð sem ég geri mér alveg grein fyrir. Ég er ekki viss um að ég kunni alveg svörin við því að öllu leyti. Það sem við hins vegar verðum að gera þegar við erum að tala um lagasmíð sem setur þessari starfsemi lagaramma til framtíðar er að takast á um það hvort við eigum að fara með þessa starfsemi, hvort við eigum að fara með vatnið, drykkjarvatnið, á markað eða hvort við eigum ekki að gera það, hvort við eigum að verða við beiðni og áskorunum samtaka launafólks á Íslandi eða hvort við eigum að láta Verslunarráðið ráða. Ég vil fylgja ráðum launafólks.